Árið 2021 er síðasta heila starfsár verkefnisins Betri Borgarfjarðar en það hóf göngu sína árið 2018. Heimastjórn, í samstarfi við sveitarfélagið Múlaþing óskaði formlega eftir framlengingu verkefnisins um eitt ár en var þeirri beiðni hafnað. Kannski má meta það svo að velgengni verkefnisins hafi orðið til þess að ekki þótti ástæða til framlengingar. Borgfirðingar hafa enda ekki setið auðum höndum frekar en fyrr. Þrátt fyrir að Covid-19 hafi enn hrellt íbúa Borgarfjarðar eins og aðra og haft áhrif á framgang ýmissa verkefna verður ekki séð að það muni hægja á framkvæmdagleðinni nema tímabundið.
Helstu verkefni ársins hafa falist í að styðja við styrkþega síðustu ára að ná sínum markmiðum, styðja við vöruþróun og nýsköpun borgfirskum fyrirtækjum og má þar nefna þróun og framleiðslu matvæla sérstaklega. Ný íbúðarhús, bæði til heilsársbúsetu og sumarhús, hafa risið á undanförnu ári og þá á sér stað mikil uppbygging hjá ferðaþjónustuaðilum í firðinum. Ferðasumarið á Borgarfirði var með miklum ágætum enda veðurblíðan einstök. Loksins sér fyrir endann á vegaframkvæmdum á Borgarfjarðarvegi en þeim mun ljúka haustið 2022 og verður þá komið bundið slitlag á alla 70 kílómetrana sem liggja milli Egilsstaða og Borgarfjarðar. Málefni tengd sjávarútvegi hafa einnig verið í brennidepli en eftir að fundargestir íbúafundar á vegum verkefnisins sendu frá sér ályktun um stöðu sjávarútvegsmála á Borgarfirði árið 2019 tókst að fá tímabundna lokun á „skápinn“ svokallaða, með tilheyrandi hagræði fyrir borgfirska smábátasjómenn.
Verkefnisstjórn fundaði fimm sinnum á árinu og árlegur íbúafundur var haldinn 23. mars 2021 þar sem verkefnisstjóri fór yfir stöðu verkefnisins og íbúar rýndu í og endurskoðuðu verkefnismarkmið Betri Borgarfjarðar. Austurbrú vann íbúakönnun fyrir verkefnið og voru niðurstöður hennar kynntar á fundinum.
Austurbrú hefur á verkefnistímanum haldið fjögur íslenskunámskeið fyrir erlenda íbúa á Borgarfirði eystri á árinu og er heildarfjöldi nemenda um 20. Tinna Jóhanna Magnusson hefur kennt námskeiðin og er ánægja nemenda mikil.
Þann 16. júní var rúmum sjö milljónum króna úthlutað úr frumkvæðissjóði Betri Borgarfjarðar til 16 samfélagseflandi verkefna. Alls bárust 22 umsóknir í sjóðinn frá 13 konum og 6 körlum og er er það í fyrsta sinn á verkefnistímanum sem konur eru meirihluti umsækjenda. Áætlaður heildarkostnaður verkefna er tæplega 33 m.kr. en sótt var um styrki fyrir rúmlega 19 m.kr. Formleg úthlutunarathöfn fór fram í Hafnarhúsinu á Borgarfirði eystra. Segja má að athöfnin hafi verið fámenn en góðmenn þar sem veður setti strik í reikninginn en tveir styrkþegar lentu í hrakningum á Vatnsskarði eystra þar sem snjóaði hressilega þetta sumardagssíðdegi. Allir komust þó á leiðarenda.