Stjórnvöld, Múlaþing og Austurbrú standa að þriggja ára verkefni um uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði í kjölfar aurskriðanna í desember 2020 en atvinnulíf hefur staðið frammi fyrir fjölþættum áskorunum í kjölfari. Með verkefninu, sem sett var á laggirnar snemmárs 2021, er veitt alls 215 milljónum kr. til ráðgjafar, greiningar og verkefna sem miða endurreisn atvinnulífs og nýsköpun. Í febrúar var úthlutað úr Hvatasjóði til verkefna sem miða að því virkja frumkvæði íbúa og koma til móts við þá atvinnurekendur og einstaklinga í atvinnurekstri sem orðið hafa fyrir tjóni. Eins og á fyrsta ári Hvatasjóðsins einkenndust umsóknir af miklum metnaði en alls bárust 36 umsóknir frá 28 aðilum. Sótt var um ríflega 220 milljónir en úthlutað var 55 milljónum til 17 verkefna. Þau eru fjölbreytt og sum hver stór í sniðum og bera vitni því einstaka hugarfari sem einkennir Seyðfirðinga. Gert er ráð fyrir þremur úthlutunum úr sjóðnum og verður sú síðasta snemmárs 2023.
Af öðrum þáttum má nefna ráðgjöf sem hefur verið veitt til að taka á bráðum rekstrarvanda og að skjóta stoðum undir framtíðarrekstur, vinnu við að leiða tjónamál til lykta, fræðsluefni um skriðuna og afleiðingar hennar og fræðslu- og virkniúrræði en á árinu var haldið námskeið í stofnun og rekstri fyrirtækja, sem var einkum ætlað nýjum fyrirtækjum og einstaklingum sem hyggja á atvinnurekstur.
Fimm manna verkefnisstjórn er yfir verkefninu; tveir fulltrúar Múlaþings, tveir fulltrúar Heimastjórnar Seyðisfjarðar og einn frá Austurbrú. Verkefnisstjóri uppbyggingarverkefnisins er hjá Austurbrú.