Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir

857 0801 // [email protected]

Rannsóknir og greiningar

Rannsókna- og greiningarteymi Austurbrúar hefur vaxið töluvert síðustu 2 ár og verkefnum málaflokksins fjölgað. Meira er um að leitað sé til stofnunarinnar eftir ýmissi greiningarvinnu, s.s. við starfsánægju- og þjónustukannanir, sem og úttektir og stjórn vinnustofa.

Á árinu fékk Austurbrú tvo stóra Evrópustyrki úr Horizon 2020 rannsóknarsjóðnum og snúa þeir báðir að náttúruvá með áherslu á Seyðisfjörð. Þessi verkefni verða unnin næstu 2-3 árin í samvinnu við önnur lönd í Evrópu og innanlands eru samstarfsaðilar Austurbrúar Veðurstofan, Almannavarnir og Háskóli Íslands. 

Við leggjum áherslu á að rannsóknum á Austurlandi sé sinnt og höfum frumkvæði að rannsóknar- og þróunarverkefnum, bæði stórum og smáum, sem byggja á sérstöðu landshlutans í náttúrufari, atvinnulífi og menningu. Áherslusviðin eru viðfangsefni sem tengjast starfssviðum Austurbrúar og samstarfsaðila hennar. Tilgangurinn er að efla og viðhalda þekkingu á samfélögum og byggðum Austurlands og taka þátt í faglegri umræðu um málefni landshlutans. Niðurstöður verkefna eru nýttar á margvíslegan hátt innan Austurbrúar og utan. Þær eru einnig birtar sem útgefnar skýrslur, lokaðar skýrslur sem birtar eru einungis þeim er málin snerta, á vef, sem ráðstefnuerindi eða á annan hátt. Oft eru verkefni kynnt sérstaklega, fyrir sveitarfélögum og fyrirtækjum eða á faglegum vettvangi með þátttöku í ráðstefnum, allt eftir því hvað við á hverju sinni. 

Rannsókna- og greiningarsviðið vinnur í samkeppnisumhverfi hvað varðar styrki og hefur fengið styrki úr Byggðarannsóknasjóði, Byggðaáætlun og frá Vegagerðinni til að vinna verkefni sem snúa að byggðaþróun, s.s. heildarúttekt á viðhorfum notenda Loftbrúarinnar til úrræðisins. Einnig hafa verið unnar kannanir á viðhorfi til samgönguúrbóta á svæðinu og minni úttektir varðandi samgöngumál sem snúa að möguleikum samflutnings fólks og farms og tækifærum fyrir farveitur. Lögð hefur verið áhersla á miðlun niðurstaðna og á heimasíðu Austurbrúar má finna kynningar um öll þau verkefni sem lokið var á árinu eða eru að hefjast. Sum verkefni fá eigin undirsíður vegna umfangs, s.s. vinna sem unnin var með íbúum Úthéraðs á möguleikum og tækifærum svæðisins. 

Enn fremur er áhersla á öflun verkefna með samtali við fyrirtæki og stofnanir og hefur Austurbrú tekið að sér greiningarvinnu fyrir ólík fyrirtæki, s.s. starfsmannakönnun og ítarleg úrvinnsla fyrir Samherja, stefnumótun fyrir Handverk og hönnun og úttekt á gæðum þjálfunar og íþróttastarfs Hattar. 

Sjálfbærni verkefni Alcoa og Landsvirkjunar er hýst innan rannsókna- og greiningarteymis og er vinnan við það u.þ.b. 80% stöðugildi. Verkefnið gengur út á söfnun gagna, uppfærslu vísa, viðhald heimasíðu og ársfund verkefnisins sem á síðasta ári hafði að þema húsnæðismál Austurlands. 

Í rannsókna- og greiningateyminu starfa fimm starfsmenn. Tinna Halldórsdóttir yfirverkefnastjóri ber ábyrgð á stefnumörkun og heildarvinnu teymisins, Erna Rakel Baldvinsdóttir verkefnastjóri sem leiðir teymið daglega og ber ábyrgð á rekstri verkefna, Arnar Úlfarsson verkefnastjóri sem sinnir Sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar, Gabríel Arnarsson sérfræðingur sem hefur umsjón með undirbúningi að mælaborði Austurlands og sinnir þverfaglegum tölfræðigreiningum og Jóhann Björn Sigurgeirsson verkefnastjóri sem sinnir fjölbreyttum úrvinnsluverkefnum og starfar einnig með fræðslusviði að fræðslugreiningum.