Aukum skilning á samfélaginu
Aukum skilning á samfélaginu
Austurbrú tekur þátt í fjölbreyttum rannsóknar- og samfélagsþróunarverkefnum sem ætlað er að auka þekkingu á austfirsku samfélagi, stuðla að framþróun og efla
landshlutann. Verkefnin eru í langflestum tilvikum samstarfsverkefni, bæði innanlands og utan. Austurbrú er ætlað að sinna rannsóknum samkvæmt samningi
við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið auk þess sem stofnunin sækir um styrki til verkefna gegnum hina ýmsu sjóði eða áætlanir. Ennfremur er unnin fjölþætt greiningarvinna í tengslum við mörg önnur verkefni innan Austurbrúar sem og ýmiskonar útseld greiningarvinna fyrir stofnanir og fyrirtæki, s.s. við starfsánægju- og þjónustukannanir, sem og úttektir og stjórn vinnustofa.
Rannsóknaáherslur eru annars vegar á samfélagið út frá lýðfræði s.s. greiningar á þróun búsetu og hins vegar sérstök áhersla á þekkingaröflun á áhrifum náttúruvár á samfélagið. Teymi málaflokksins vinnur í samkeppnisumhverfi hvað varðar styrki og hefur fengið fjölmarga stærri og minni styrki en stöðugt þarf að vinna að því að fylgjast með sjóðum og umsóknarköllum úr þeim til að viðhalda góðri verkefnastöðu. Lögð hefur verið áhersla á miðlun niðurstaðna og á heimasíðu Austurbrúar má finna kynningar um öll þau verkefni sem teymið hefur unnið að.
Stærstu verkefni teymisins eru vinna í Evrópuverkefnum og Sjálfbærniverkefninu. Unnið var með þrjú EU Horizon-verkefni sem öll eru fjölþjóðasamvinna og standa yfirleitt í 3-5 ár. Tvö þeirra snúa að náttúruvá með áherslu á Seyðisfjörð og þriðja snýr að innleiðingu grænna lausna varðandi náttúruvá eða afleiðinga loftslagsbreytinga. Samstarfsaðilar Austurbrúar í Íslandsteymi verkefnanna eru Veðurstofan, Almannavarnir, Háskóli Íslands og Matís. Þátttaka í þessum verkefnum felur í sér samstarf á stað- og fjarfundum með annars vegar íslensku samstarfsaðilunum og hins vegar heildarhópnum sem tekur þátt í verkefninu, auk vinnslu í skilgreindum verkefnapökkum. Einnig felst í verkefnunum þátttaka í ársfundum sem oftast eru nokkurra daga vinnufundir.
Sjálfbærniverkefni Alcoa og Landsvirkjunar er hluti af verkefnum málaflokksins og er vinnan við það u.þ.b. 80% stöðugildi. Verkefnið hefur verið hýst hjá Austurbrú frá 2013 og felst í söfnun gagna, uppfærslu vísa, viðhald heimasíðu og ársfund verkefnisins. Árið 2024 var síðasta árið sem gögnum var safnað á hefðbundinn hátt og haustið 2024 var gerður nýr samningur við Landsvirkjun og Alcoa Fjarðaál um að árið 2025 verði uppgjörs- og úrvinnsluár á öllum þeim gögnum sem orðið hafa til í verkefninu.
Austurbrú tók að sér verkefnastjórn í samstarfsverkefni allra landshlutasamtakanna úr Byggðaáætlun, verkefni sem snýr að stefnumótun varðandi menningarhús á landsbyggðinni og er það stórt verkefni sem lýkur um mitt ár 2025.
Tvö ný verkefni voru undirbúin seinni hluta árs 2024. Annars vegar samningur við barnamálaráðuneyti vegna innleiðingar farsældarlaganna og felst í verkefnastjórn um farsældarráð Austurlands. Ráðinn var verkefnastjóri sem mun leiða verkefnið sem stendur frá 2025 til 2028. Hitt verkefnið var styrkumsókn í Alcoa Foundation en þaðan fengust 30 milljóna styrkur til þriggja ára í desember 2024. Verkefnið kallast Samkomuhús – geðræktarmiðstöð á Austurlandi og er samstarfsverkefni Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Starfsendurhæfingar Austurlands og félagsþjónustu Fjarðabyggðar og Múlaþings.
Verkefnastjórar sem tilheyra rannsókna- og samfélagsþróunarteyminu vinna flestir að verkefnum í öðrum málaflokkum Austurbrúar þannig að góð heildarsýn verður yfir verkefnastöðu og samlegð verkefna.

Yfirverkefnastjóri rannsókna og greininga
Tinna K. Halldórsdóttir