Náms- og starfsráðgjöf er mjög mikilvæg þjónusta fyrir einstaklinga á öllum aldri. Þetta á ekki síst við á landsbyggðinni þar sem menntunarstigið er almennt lægra en á höfuðborgarsvæðinu og minna um námsframboð. Náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna hefur verið sinnt á Austurlandi á vegum Austurbrúar. Samningur við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins veitir Austurbrú fjárhagslegan styrk til að sinna verkefninu. Hjá Austurbrú eru tveir menntaðir náms- og starfsráðgjafar. Fleiri starfsmenn hafa boðið upp á ráðgjöf, s.s. til háskólanema, atvinnuráðgjöf og fleira.

Ferðir og fjarfundir

Náms- og starfsráðgjafar ferðast talsvert til að koma til móts við ráðþega. Flestar ferðir voru á Reyðarfjörð og þar á eftir Egilsstaði frá Neskaupstað. Alltaf er reynt að koma til móts við ráðþega varðandi staðsetningar viðtala. Frá upphafi covid hafa viðtöl þar sem Teams er notað verið að festa sig í sessi. Ráðþegar verða sífellt öruggari í þessu fjarfundaumhverfi og margir kjósa það umfram það að hittast á starfsstöð. Einnig er algengt að ráðgjöf einstaklings sé blönduð í fjarfundi og á staðnum eftir því hvað hentar hverju sinni

Fjölbreytt þjónusta

Námsráðgjafi sinnir mikið einstaklingum sem leita til hans að eigin frumkvæði og sumir hafa samband eftir kynningu á vinnustöðum. Þjónustan spyrst út og margir frétta af henni frá vinum, kunningjum og samstarfsfólki. Eins er talsvert vísað í náms- og starfsráðgjöf hjá Austurbrú í gegnum VIRK, Starfsendurhæfingu Austurlands (StarfA) og Vinnumálastofnun. Langflestir sem leita til náms- og starfsráðgjafa vilja hefja nám, oft eftir langt hlé frá námi. Einstaklingar sækist eftir aðstoð við að átta sig á áhugasviði sínu, fær þá viðtal og taka áhugasviðskönnun. Ýmsir þurfa aðstoð við að skoða hvaða nám er í boði, bæði í framhaldsskóla og háskóla, hvernig menntakerfið virkar, hvað þeir þurfa til að vera gjaldgengir í háskólanám o.fl. Einstaklingar þurfa oft aðstoð við að skoða hvað þeir eru búnir með og hvaða leið er best. Þeir sem eru að skoða háskólanám vilja búa áfram fyrir austan og sækjast því eftir fjarnámi. Einnig er algengt er að einstaklingar fái aðstoð við gerð ferilskrár og jafnvel kynningarbréfs. Ráðgjafi sinnir einnig einstaklingum af erlendum uppruna sem þurfa gjarnan aðstoð við að átta sig á íslenska kerfinu bæði í mennta- og starfsumhverfi. Náms- og starfsráðgjafi sinnir hópráðgjöf og heldur námskeið. Árið 2021 hélt ráðgjafi námskeið fyrir skjólstæðinga StarfA og Vinnumálastofnunar ásamt því að koma inn í lengri námsleiðir Austurbrúar með kennslu og ráðgjöf.

Samningur við Vinnumálastofnun

Seinni part árs 2020 var gerður þjónustusamningur við Vinnumálastofnun (VMST) um náms- og starfsráðgjöf til atvinnulausra. Samningurinn gilti til júní 2021. Ákveðið var að endurnýja ekki samninginn en áfram getur VMST vísað skjólstæðingum sínum í náms- og starfsráðgjöf hjá Austurbrú.

Verkefnisstjórn


Hrönn Grímsdóttir

470 3833 // [email protected]