Samfélagsverkefnið Fögur framtíð í Fljótsdal (FFF) byggir á ákveðinni framtíðarsýn sem sett var af íbúum í Fljótsdalshreppi 2019. Á hverju ári er skipulagt samfélagsþing til að móta verkefni komandi árs. Verkefnastjóri FFF er svo aðilum innan handar við að ramma betur inn verkefnin, rýna kostnaðaráætlanir, lesa yfir styrkumsóknir og aðstoða að ýmsu öðru leyti. Verkefnin tengjast fjórum meginmarkmiðum og eru hér nefnd nokkur dæmi um verkefni sem komu til framkvæmda á árinu:
Skapandi og samheldinn mannauður
Skipulögð voru handverkskvöld í Végarði og fræðsluviðburðir á fimmtudagskvöldum þegar samkomutakmarkanir komu ekki í veg fyrir slíkt. Gerð var tilraun til að bjóða fram eina heita hádegismáltíð á viku frá október og fram í desember við góðar undirtektir. Frá júní og fram í ágúst var boðið uppá kvöldgöngur með leiðsögn heimamanna sem jafnframt voru vel sóttar.
Sjálfbær landbúnaður og nýting náttúruauðlinda
Stutt hefur verið við ýmis verkefni sem komið hafa fram sem hugmyndir en eru nú komin af stað og jafnvel lokið. Má hér nefna þróun á sauðamjólkurís og öðrum afurðum hjá Sauðagulli ehf. Alíslenskar baðtunnur frá Skógarafurðum ehf með sérsmíðuðum viðarkyndara frá GJ Smíði ehf. Einnig tilraunaræktun á burnirót og nýtingu villtra jurta í sérvörur.
Góð búsetuskilyrði og öflugir innviðir
Undirbúningsvinnu var haldið áfram með byggðakjarna í Fljótsdal og að uppbyggingu þjónustuhúss við Hengifossárgil. Mikil tími fór auk þess í að leggja drög með íbúum og rýnihópum að loftslags- og umhverfisstefnu sveitarfélagsins og innviðagreiningu Fljótsdalshrepps. Hafin var vinna við endurgerð heimasíðu sveitarfélagsins. Kláruð var endurgerð Hrakstrandar og hafist handar við að gera upp gamla skálann í Fjallaskarði. Húsnæðisáætlun sveitarfélagsins komið á starfrænt form.
Einstök náttúra og saga
Örnafnaskráningu var framhaldið sem og að skrá menningar- og fornminjar jarða Skriðuklausturs. Opnaður var einstakur söguhringur við Valþjófsstaðakirkju sem er frábær viðbót við þann þekkta áfangastað. Bætt var aðgengi að Hengifossi og gengið frá samningum við landeigendur og Vegagerð í tengslum við áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu. Komið var upp skemmtilegum skiltum við dilka Melaréttar og hafist handa við að útbúa reiðstíg frá Droplaugarstöðum að Hengifossárgili.
Vorið 2021 gerið Hólaskóli (Háskólinn á Hólum) samning við Austurbrú um að verkefnastjóri FFF tæki að sér leiðsögn verknema í tengslum við viðburðastjórnunarnám skólans. Neminn Sylvía Helgadóttir fékk að kynna sér verkefnadrifna séreignastofnun en jafnframt að koma að verkefnum í tengslum við FFF, bæði að fylgjast með en einnig að sjá alfarið um framkvæmd þeirra. Alls voru þetta 200 stundir á vinnustað og um 130 stundir í verkefnavinnu, frá 18. janúar til 23. apríl 2021.
Verkefnastjóri FFF er jafnframt starfsmaður Samfélagssjóðs Fljótsdals. Á þessu ári auglýst eftir umsóknum í janúar. Alls bárust 30 umsóknir. Heildarkostnaður verkefna var 75 milljónir kr. og sótt um 35 milljónir, til úthlutunar voru 12.800.000 kr. sem fóru til 18 verkefna. Samfélagsþingin leggja línur fyrir áherslur sjóðsins, sem geta því breyst milli ára.
Nánari upplýsingar í ársskýrslu Fagrar framtíðar í Fljótsdals 2021.