Matarauður Austurlands festi sig í sessi sem eitt af meginverkefnum Áfangastaðarins Austurlands. Áfram var unnið að því að auka sýnileika austfirskra matvælaframleiðenda og var ráðist í verkefni sem hlaut nafnið: Láttu stjörnuna leiða þig. Það fólst í samstarfi við allar dagvöruverslanir á Austurlandi sem settu upp sérstakar merkingar við austfirsk matvæli í sínum verslunum. Neytendur voru hvattir til að versla austfirska matvöru og urðu matvælaframleiðendur varir við töluvert aukna sölu á sínum matvælum eftir að merkingarnar fóru í loftið. Verður þessu verkefni fylgt eftir á næstu árum.

Þá var blásið til veislu í lok september en þá fór fram viðburðurinn Okkur að góðu. Hann var samstarf þriggja viðburða og náði yfir þrjá daga: Fyrstan skal telja lokaráðstefnu Nordic Food in Tourism sem fór fram á Egilsstöðum þann 30. september á vegum Íslenska ferðaklasans en unninn í samstarf við Austurbrú. Fjölmargir þátttakendur voru í viðburðinum, hvoru tveggja á staðnum og í fjarfundi. Þá var haldið Hacking Austurland í Neskaupstað, dagana 30. september – 2. október í samstarfi Hacking Hekla og Austurbrúar. Viðburðurinn fór fram á Teams og voru þátttakendur alls staðar að, af landinu og var þemað bláa auðlindin. Síðast en ekki síst fór fram Matarmót á Egilsstöðum þar sem um 30 matvælaframleiðendur af Austurlandi kynntu vörur sínar fyrir matvælaframreiðendum og söluaðilum á Austurlandi. Erlendir og íslenskir fyrirlesarar fluttu erindi og voru gestir 100 talsins. Mikil ánægja var með alla þessa viðburði og náðist að mynda tengsl og auka sýnileika framleiðenda á svæðinu.

Seint á árinu fengu landshlutasamtökin, Samtök smáframleiðenda matvæla og Rata styrk til að vinn að verkefni sem kallast Matsjáin. Það er hugsað sem vettvangur fyrir smáframleiðendur matvæla til að styrkja stöðu sína, mynda tengsl, fá aðstoð við ýmis rekstrartengd mál og ýmislegt fleira. Kynningar og undirbúningur fóru fram í nóvember og desember og hófst verkefnið í janúar 2022. Alls voru yfir 80 þátttakendur skráðir til leiks.

Verkefnið vakti mikla athygli á árinu og voru tekin viðtöl, hvoru tveggja í útvarpi og sjónvarpi, skrifaðar greinar og gerð hlaðvörp um ýmis matvælatengd mál. Þá sat verkefnastjóri ýmsa fundi og kynningar og var í samstarf við fjölmarga aðila, eins og t.d. Hallormsstaðaskóla ráðuneytið, veitinga- og söluaðila matvæla hagsmunasamtök o.fl.

Verkefnisstjórn


Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

470 3871 // [email protected]