Áfangastaðaáætlun
Áfangastaðaáætlun er sameiginleg stefnuyfirlýsing sem hefur það að markmiði að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn hagsmunaaðili ber ábyrgð á og hvaða bjargir og auðlindir þeir hyggjast nýta við þá vinnu. Áætlanirnar eru unnar í samvinnu við áfangastaðastofur landshlutanna sem fara með verkefnisstjórn áætlanagerðar á sínum svæðum. Um er að ræða heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði eða áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis.
Á árinu voru unnin drög að áfangastaðaáætlun fyrir árin 2022-2025 af Maríu Hjálmarsdóttur og Daniel Byström og lýkur þeirri vinnu á árinu 2023.
Útgáfa
Bæklingurinn Destination Guide fyrir Austurland var uppfærður og gefinn út í byrjun árs 2022. Einnig var þýsk útgáfa bæklingsins gefin út síðla árs, sem og þýsk útgáfa af tímariti Austurlands, Think outside the circle í tengslum við áætlunarflug Condor sem hefst vorið 2023 og vakti það mikla lukku á kynningarfundum í Þýskalandi. Austurlandskortið var prentað snemma árs 2021 en sú útgáfa er til tveggja ára. Því var kortið ekki endurprentað í ár en vinna við uppfærslu kortsins hófst í lok árs. Birtar voru auglýsingar í helstu íslensku prentmiðlum og ferðablöðum og auglýsingar voru samlesnar á Rás 1 og Rás 2 í tengslum við sumarið.
Seglamyndatökur
Datera vann skýrslu fyrir Austurbrú um helstu segla í landshlutanum og í kjölfarið var farið í myndatökur með ljósmyndurunum Þráni Kolbeinssyni og Þorsteini Roy. Eftirfarandi seglar voru myndaðir: Stuðlagil, Hengifoss og Borgarfjörður eystri. Á Borgarfirði var lögð áhersla á lunda og Dyrfjallahlaupið. Það eru ekki margir staðir á landinu þar sem fólk kemst í sama návígi við lundann og í Hafnarhólma, höfuðborg lundans á Íslandi. Einnig eru aðstæður til útivistar á svæðinu frábærar og Dyrfjallahlaupið einn stærsti íþróttaviðburður sem haldinn er á Austurlandi og var þess vegna ákveðið að slá tvær flugur í einu höggi og mynda hlaupið í leiðinni.
Móttaka blaðmanna og áhrifavalda
Áfangastaðastofa Austurlands vinnur árið um kring að margvíslegu markaðs- og kynningarstarfi fyrir landshlutann. Sem dæmi má nefna samstarf við Íslandsstofu og austfirska ferðaþjónustuaðila um skipulagningu og framkvæmd ferða erlendra blaðamanna um svæðið. Fyrirspurnir berast frá sjálfstæðum blaðamönnum, bloggurum og áhrifavöldum sem Austurbrú aðstoðar við stóra og smáa hluti; ferðaskipulagningu og almenn ráð, að koma á samböndum við samstarfsaðila, öflun ljósmynda fyrir umfjallanir og fleira. Auk þess eru gjarnan ferðabloggarar og áhrifavaldar á ferð um landshlutann á eigin vegum en Austurbrú, með aðstoð Íslandsstofu, fylgist með og kortleggur umfjöllun sem birtist um Austurland og austfirska áfangastaði á vef- og samfélagsmiðlum. Markmiðið er ávallt að kynna fyrir gestum okkar þá fjölbreyttu möguleika sem landshlutinn okkar býður upp á í ævintýrum og afþreyingu, mat, gistingu og upplifunum.
Á árinu 2022 tók Austurbrú á móti fjölda blaðamanna víða að, t.d. frá Íslandi, Bretlandi, Austurríki, Þýskalandi, Frakklandi og Belgíu. Mikill áhugi er á landshlutanum í tengslum við væntanlegt beint flug Condor til Egilsstaða og komu þrír blaðamenn frá erlendum flugfagtímaritum til landsins í því skyni að fjalla sérstaklega um Egilsstaðaflugvöll og ferðalög um landshlutann. Einnig var tekið á móti áhrifavöldum og má þar helst nefna Emilie, Jason Hill og Rúrik Gíslason, fyrrverandi fótboltamann. Móttaka Rúriks var unnin í samstarfi við Íslandsstofu og Icelandair en hann ferðaðist um Austurland og sýndi frá því á samfélagsmiðlum sínum. Í kjölfarið gaf hann út fimm myndbönd um heimsóknina auk aukaefnis og fékk þetta allt saman gríðarmikið áhorf og athygli.
Vef- og samfélagsmiðlar
Á árinu vann Austurbrú áfram að uppfærslu á ferðavefnum Visit Austurland. Vefurinn er sem fyrr eitt helsta verkfærið sem nýtt er við markaðssetningu og kynningu áfangastaðarins Austurlands.
Áfram var unnið að uppbyggingu samfélagsmiðla með það markmið að auka sýnileika Austurlands á samfélagsmiðlum og með Google herferðum. Það skilaði sér í 16% fjölgun fylgjenda á Facebook og 17,5% fjölgun fylgjenda á Instagram. Á miðlunum er áhersla lögð á að kynna landshlutann og það sem hann hefur upp á að bjóða með áhugaverðu myndefni og textum. Samfélagsmiðlar voru einnig nýttir til að kynna greinar sem birtast mánaðarlega á Visit Austurland.
Unnið var að uppfærslu Austurland.is og má þar helst nefna svæði sem helgað er óstaðbundnum störfum og fjárfestingahlutann Invest in Austurland. Einnig var skipulagi vefsins breytt og er hann í dag hugsaður sem vefur fyrir íbúa og tilvonandi íbúa á svæðinu. Áfram verður unnið að uppfærslu Austurland.is á árinu 2023.
Vetrarferðaþjónusta Austurlands
Ljóst er að tækifæri landshlutans felast í aukinni þróun heilsársferðaþjónustu. Innviðir til afþreyingar að vetri til eru töluverðir í landshlutanum. Samstarfið milli Stafdals og Oddskarðs hélt áfram og unnið var að sameiginlegum passa á milli svæðanna. Veturinn fékk að njóta sín í markaðssetningu á áfangastaðnum og sérstök áhersla var lögð á viðburði og helgarferðir yfir vetrarmánuðina. Samstarf Austurbrúar við Austurland Freeride Festival hélt áfram og í desember 2022 var samtalið þegar hafið fyrir árið 2023.
Ferðaleiðir
Mikil áhersla var lögð á ferðaleiðir um Austurland í markaðssetningu, hvort sem var á vefnum, samfélagsmiðlum eða umfjöllun. Mikil vinna var lögð í að yfirfara ferðaleiðirnar á vefnum okkar Visit Aausturland og þær gerðar aðgengilegri og skilvirkari fyrir notendur. Sú vinna er enn í fullum gangi og verða ferðaleiðirnar og framsetning þeirra, hvort sem er á vef eða í prenti, í stöðugri þróun næstu ár.
Ferðaleiðirnar voru mikið notaðar á ferðasýningum og vinnustofum þar sem þær eru kynntar sem góður grunnur fyrir ferðaskrifstofur sem skipuleggja ferðir um svæðið. Þar geta ferðskrifstofur og ferðaskipuleggjendur fengið hugmyndir að ferðum eða jafnvel nýtt heila ferðaleið sem sína eigin vöru. Mikil ánægja ríkir meðal ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda með ferðaleiðirnar sem auðvelda þeim sína vinnu töluvert.
Myndabanki
Áfram var unnið að söfnun myndefnis í myndabanka Austurbrúar. Aðaláherslan var á seglamyndatökur og voru ljósmyndararnir Þráinn Kolbeinsson fengnir til að mynda Stuðlagil, Hengifoss, Seyðisfjörð og Borgarfjörð eystri með áherslu á Lunda og Dyrfjallahlaupið.
Samstarf markaðsstofa landshlutanna
Austurbrú er þátttakandi í verkefninu Markaðsstofur landshlutanna (MAS). Hlutverk markaðsstofanna er að samræma kynningar- og markaðsmál í ferðaþjónustu, sjá um útgáfumál, móttöku blaðamanna ásamt beinni markaðssetningu og vinnu við þróun í ferðaþjónustu. Markaðsstofurnar hittast alla jafna tvisvar sinnum á ári í Reykjavík á vinnustofum. Fyrri vinnustofa ársins var haldin dagana 24.-25. febrúar á Icelandair Hótel Natura og Grósku. Farið var yfir sameiginleg verkefni ásamt því að Lilja Alfreðsdóttir þingmaður hélt stutta tölu. Seinni fundur ársins fór fram á Grand Hótel dagana 12.-13. október. Þar fóru markaðsstofurnar yfir það hvað MAS stendur fyrir og endursköpun á ímynd, gildum og branding.
Stærsta samstarfsverkefni Markaðsstofa landshlutanna er hin árlega ferðasýning Mannamót sem alla jafna fer fram um miðjan janúar. Markaðsstofurnar halda utan um ferðasýninguna og eru samstarfsaðilum sínum til halds og trausts á meðan henni stendur. Vegna samkomutakmarkanna var sú breyting á að Mannamót voru haldin um miðbik mars en ekki janúar árið 2022.
Ferðasýningar
Austurbrú fer fyrir hönd Austurlands á ferðasýningar, vinnustofur og ráðstefnur í ferðaþjónustu á hverju ári. Er það hluti af markaðssetningu landshlutans til bæði innlendra og erlendra ferðamanna, sem og að styrkja og mynda ný viðskiptatengsl milli ferðaskrifstofa og samstarfsfyrirtækja Austurbrúar.
Alla jafna eru Mannamót fyrsta ferðasýning ársins en hún fer fram um miðjan janúar ár hvert. Árið 2022 settu samkomutakmarkanir hins vegar strik í reikninginn og var sýningin færð fram í mars. Alls tóku 21 fyrirtæki frá Austurlandi þátt í Mannamótum og tókst vel til. Yfir 600 gestir sóttu sýninguna og fékk Austurland verðskuldaða athygli fyrir sameiginlegt og snyrtilegt útlit.
Þann 13. september fór verkefnastjóri Austurbrúar til Hamborgar og sat þar vinnustofuna Nordic Workshop sem er samstarfsverkefni Íslandsstofu, Visit Finland, Visit Norway og Visit Denmark. Austurbrú átti þar fundi með þrettán þýskum ferðaskrifstofum auk þess að ná þar tali af starfsmanni Condor. Fyrirtækin voru öll spennt fyrir Austurlandi sem áfangastað, einhverjir voru nú þegar að selja ferðir hingað og aðrir höfðu áhuga á að bæta landshlutanum við vöruúrval sitt. Aðalástæða fyrir veru Austurbrúar á vinnustofunni er fyrirhugað flug Condor á milli Frankfurt og Egilsstaða sumarið 2023 og var það megináhersla á öllum fundum við þýsku ferðaskrifstofurnar.
Vestnorden er árlegt samvinnuverkefni NATA (North Atlantic Tourism Association), þ.e. Visit Iceland, Visit Greenland og Visit Faroe Islands. Ferðasýningin er haldin annað hvert ár á Íslandi og svo skiptast Grænland og Færeyjar á að halda viðburðinn þess á milli. Að þessu sinni fór Vestnorden fram í Nuuk í Grænlandi dagana 19.-22. september. Þar átti verkefnastjóri Austurbrúar fundi með um þrjátíu ferðaskrifstofum og ferðasölum víðs vegar úr heiminum. Ásamt Austurbrú sóttu þrjú fyrirtæki frá Austurlandi viðburðinn; Óbyggðasetrið, Vök Baths og Tanni Travel. Fyrirhugað var að fljúga til Íslands þann 23. september en vegna aftakaveðurs bæði á Grænlandi og Íslandi seinkaði heimför verkefnastjóra til 26. september og sat hann því fastur í Nuuk ásamt yfir hundrað Íslendingum í örfáa daga.
Fundir ferðaþjónustunnar
Morgunfundir ferðaþjónustunnar voru á sínum stað árið 2022. Í heildina voru haldnir sex morgunfundir sem allir voru vel sóttir. Umfjöllunarefni morgunfundanna voru m.a. seglar á Austurlandi, sýnileiki austfirskra matvæla, kynningar á Ferðamálastofu og Hæfnisetri ferðaþjónustunnar og margt fleira.
Haustfundur ferðaþjónustunnar er orðinn að árlegum viðburði. Árið 2022 var hann haldinn á Hótel Breiðdalsvík þann 10. nóvember. Dagurinn hófst á ferð á vegum Tanna Travel, Tinnu Adventure og Adventura þar sem ekið var frá Breiðdalsvík til Djúpavogs og fengu gestir góða kynningu á því sem svæðið hefur upp á að bjóða. Fundurinn sjálfur var vel sóttur og mættu um fimmtíu manns á hann. Sex erindi voru á dagskrá, þrjú inann landshluta og þrjú utan hans. Fyrirlesarar þetta árið voru Eyþór Guðjónsson hjá Sky Lagoon, Sigríður Dögg Guðmundsdóttir hjá Íslandsstofu og Grétar Guðmundur Sæmundsson hjá Ferðamálastofu. Þá sáu Berglind Einarsdóttir hjá Adventura, Maciej Pietrunko frá Arctic Fun og María Hjálmarsdóttir verkefnastjóri hjá Austurbrú um erindin frá Austurlandi. Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar voru veitt og þau hlutu Mjóeyri ferðaþjónustu og HS Ferðaþjónustu (Finnsstaðir) í þetta sinn. Að fundi loknum snæddu gestir saman kvöldverð á Hótel Breiðdalsvík og breski uppistandarinn Kimi Tayler fór með gamanmál.
Samstarfsaðilar
Samstarfsaðilar Austurbrúar telja rúmlega 100 greiðandi fyrirtæki auk sveitarfélaga og þeirri þjónustu sem þar fellur undir. Þeir hafa aðgang að ráðgjöf hjá verkefnastjórum m.a. við þróunarvinnu, styrkumsóknir, markaðssetningu og annað tilfallandi. Austurbrú sér um sameiginlega markaðssetningu á landshlutanum í þágu samstarfsaðila, s.s. með því að sækja ferðasýningar og kaupstefnur en einnig í stafrænni markaðssetningu á samfélags- og vefmiðlum og blaðamannaferðum. Austurbrú stendur einnig fyrir lokuðum viðburðum fyrir sína samstarfsaðila og má þar m.a. nefna haustfund ferðaþjónustunnar, morgunfundi, námskeið og vinnustofur.