Stöðvarfjörður hóf þátttöku í byggðarþróunarverkefninu Brothættar byggðir í mars 2022. Þá var haldið vel heppnað íbúaþing og var þátttaka góð. Markmiðið með Brothættum byggðum er að stöðva viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og sveitum landsins. Verkefnið er unnið með því að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra.
Austurland hlaðvarp fjallaði um Sterkan Stöðvarfjörð og talaði m.a. við verkefnastjórann, Valborgu Ösp Warén.
Hlusta á hlaðvarpsþáttÁ íbúaþinginu komu fram helstu málefni sem brunnu á íbúum, ásamt því að stefna verkefnisins var gróflega mótuð. Fulltrúar íbúa í verkefnisstjórn voru kosnir og forgangsröðun verkefna var skilgreind eftir kosningu íbúa um þau málefni sem skiptu þá mestu máli. Annars vegar er áhersla á að fjölga íbúum og þar með atvinnutækifærum og auka framboð á húsnæði, hins vegar á að fegra nærumhverfið.
Mikill áhugi er meðal íbúa Stöðvarfjarðar að nýta hinn svokallaðan Bala betur en það er opið svæði í grennd við grunnskólann. Þar er nú sparkvöllur og ærslabelgur, ásamt nokkrum gömlum leiktækjum. Stöðfirðingar hafa mikinn áhuga á að gera meira úr þessu svæði og búa þarna til fjölskylduvænt svæði með margvíslegum möguleikum til afþreyingar. Vinna er hafin innan Fjarðabyggðar við að skipuleggja Balann eftir hugmyndum sem hafa komið fram á bæði íbúaþingi og íbúafundum og mun tillaga vera lögð fram til kynningar nú í vor.
Eftir íbúafund í september þar sem verkefnisáætlun var samþykkt, var opnað fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóð Sterks Stöðvarfjarðar þar sem sjö milljónir voru til úthlutunar. Alls bárust 18 umsóknir og heildarfjárhæð styrkumsókna var 17.149.955 kr. en heildarkostnaður verkefna er 51.710.059 kr. Eftir vinnu valnefndar og samþykki verkefnisstjórnar var ákveðið að veita styrki til 13 verkefna og fór formleg úthlutunarathöfn fram þann 18. nóvember.
Önnur verkefni ársins hafa verið ýmis greiningarvinna á þeim starfsmarkmiðum sem samþykkt var að setja í verkefnisáætlun. Má þar nefna greiningarvinna á núverandi kerfi almenningssamgangna í Fjarðabyggð, kortlagning á afþreyingu og félagsstarfi sem í boði er á Stöðvarfirði, ásamt því að leita leiða til að efla íþróttastarf Súlunnar, svo fátt eitt sé nefnt.
Verkefnisstjórn fundaði ört yfir árið enda mikið sem þarf að undirbúa þegar byggðakjarnar eru að hefja göngu sína í Brothættum byggðum. Unnin var stöðugreining fyrir Stöðvarfjörð ásamt því að vinna verkefnisáætlun Sterks Stöðvarfjarðar og nokkrir fundir fóru í yfirferð á umsóknum og undirbúning vegna úthlutunar úr Frumkvæðissjóði.
Íbúaþingið sem haldið var í mars gaf ákveðinn tón fyrir því hvernig fyrstu mánuðir verkefnisins Sterkur Stöðvarfjöður myndi vera. Íbúafundir hafa verið vel sóttir og þátttakendur áhugasamir og óhræddir við að koma með hugmyndir, athugasemdir og umræður hafa ávallt verið góðar og gagnlegar. Allir eiga það sameiginlegt að vilja sjá Stöðvarfjörð blómstra og fólk bindur vonir við að þetta verkefni muni byggja þann grunn sem þarf til þess.