Lengri námsleiðirnar sem Austurbrú kennir eru kenndar eftir vottuðum námskrám frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FRÆ) og eru fjármagnaðar með framlagi frá Fræðslusjóði. Markhópur fræðslunnar eru einstaklingar sem eru 18 ára og eldri og hafa ekki útskrifast úr framhaldsskóla (ss stúdentspróf eða iðnréttindi). Í flestum tilfellum er heimilt að meta nám á námsleið til eininga í framhaldsskóla. Kennsluhættir og skipulag náms miðast við að mæta þörfum fullorðinna. Að stunda nám í þessum lengri námsleiðum getur því verið góð leið fyrir þá sem vilja koma sér af stað í frekara nám og fyrir þá sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaðinum eða efla sig persónulega.
Menntastoðir
Austurbrú hefur boðið upp á staka námsþætti úr menntastoðum. Árið 2022 voru tveir námsþættir kenndir, einn í ensku á vorönn og annar í stærðfræði á haustönn. Hver námsþáttur er reiknaður sem 100 klukkustunda vinna sem skiptist í tíma með kennara og sjálfsstæða vinnu nemenda.
Stóriðjuskólinn
Eitt af stærri verkefnum Austurbrúar er Stóriðjuskólinn eða Nám í stóriðju skamkvæmt námsskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Námsbrautin er rekinn í samstarfi við Alcoa Fjarðaál. Námið skiptist í 400 klst grunnnám og 500 klst framhaldsnám. Það skiptist á sex annir, annars vegar þrjár annir í grunnnámi og hins vegar þrjár annir í framhaldsnámi. Kennsla fer fram einu sinni í viku, frá átta til fjögur og eru kenndir um fimmtán dagar á önn í grunnnámi en nítján dagar í framhaldsnámi. Í desember 2022 útskrifuðust 24 nemendur úr grunnnáminu. Það var tólfta útskriftin úr skólanum en sex sinnum hefur verið útskrifað úr grunnnámi og sex sinnum úr framhaldsnámi.
Frétt um útskrift úr StóriðjuskólanumLíf og heilsa
Á vorönn 2022 var síðari hluti námsleiðarinnar Líf og heilsa kennd. Kennslan fór alfarið fram á netinu. Fjallað er um heilbrigði á heildrænan hátt með áherslu á næringu, hreyfingu og andlegt heilbrigði.
Uppleið
Árið 2022 var námsleiðin Uppleið (nám byggt á hugrænni atferlismeðferð) kennd í samstarfi við Vinnumálstofnun. Uppleið er 40 klukkustunda nám ætlað þeim sem vilja læra að takast á við hamlandi líðan með því að nýta sér aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar (HAM) í daglegu lífi. Alls voru fjórir námshópar í gangi á árinu. Einn hópurinn var pólskumælandi og fékk kennslu á pólsku með pólskumælandi kennara.
Stökkpallur
Eitt af föstum verkefnum hjá Austurbrú er námsleiðin Stökkpallur sem rekin í samstarfi við Starfsendurhæfingu Austurlands og fer kennslan fram hjá Starfsendurhæfingunni. Stökkpallur lýsir námi á 1. þrepi þar sem áhersla er lögð á að byggja upp samskiptafærni, efla sjálfstraust og þjálfa námsmenn til atvinnuþátttöku í mismunandi starfsumhverfi og til áframhaldandi náms. Námsmenn vinna markvisst að eigin færniuppbyggingu með markmiðasetningu, þjálfun í samskiptum og tjáningu, auknu fjármálalæsi, skipulögðum vinnubrögðum við upplýsingaleit og aukinni hæfni til að taka þátt í námi og starfi. Markmið námsins er að auka starfshæfni námsmanna og gera þá meðvitaðri um eigin styrkleika. Nemendur geta komið inn í námsleiðina á mismunandi tímum og útskifast þegar þeir hafa lokið öllum námþáttum.
Íslensk menning og samfélag
Eins og segir í námskrá námsleiðarinnar er tilgangur námsins að auðvelda fólki af erlendum uppruna aðlögun að íslenskum vinnumarkaði og samfélagi. Í náminu er lögð áhersla á íslenskt mál, menningu, samfélag og atvinnulíf ásamt því að byggja upp sjálfstraust og samskiptafærni. Námið fer fram á íslensku. Gerð var tilraun með að kenna þessa námsleið í stað- og fjarnámi til skiptis þar sem nemendur komu víða af Austurlandi. Tíu nemendur skráðu sig til leiks. Veður og fleiri utanaðkomandi þættir urðu þess valdandi að aðeins var hægt að ljúka hálfri námsleið eða 100 klst.
Myndlistarsmiðja
Myndlistarsmiðja var kennd í samstarfi við Starfsendurhæfingu Austurlands. Megintilgangur með námi í smiðju er að námsmenn kynnist fjölbreyttum vinnuaðferðum þar sem reynir á verkkunnáttu, sköpunarkraft, samhæfingu og fjölbreytt tjáningarform. Markmiðið með myndlistarsmiðju er að þátttakendur læri vinnuferli í gerð myndlistaverka og framsetningu þeirra undir handleiðslu sem miðast við nýliða í skapandi starfi. Áhersla er lögð á undirstöðuþekkingu, leikni og hæfni fyrir nýliða á sviði sköpunar og framsetningar, að þátttakendur læri og tileinki sér sjálfstæð og öguð vinnubrögð auk þess sem þeir efli samvinnu og samskiptafærni sína.