Fræðum Austurland
Fræðum Austurland
Austurbrú sinnir fjölbreyttum verkefnum á sviði fullorðinsfræðslu, símenntunar og háskólaþjónustu á Austurlandi. Stofnunin er viðurkenndur fræðsluaðili með EQM gæðavottun og starfar í samræmi við framhaldsfræðslulög. Verkefnin ná yfir breitt svið og eru unnin í nánu samstarfi við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir.
Fræðsluteymið hefur á að skipa um fjórum einstaklingum auk starfsmanna er sinna afmörkuðum verkefnum og eru í stoðþjónustu. Auglýst var staða innan teymisins á haustmánuðum þar sem bætt verður um betur í háskólaþjónustunni á komandi ári.
Háskólaþjónusta Austurbrúar felur fyrst og fremst í sér að veita námsaðstöðu, ráðgjöf vegna náms og verkefna og prófaþjónustu. Prófaumsýslan hefur aukist ár frá ári og skólaárið 2023-2024 voru t.d. tekin 811 próf af 385 nemum sem var um 14% aukning frá skólaárinu á undan.
Símenntun Austurbrúar felur í sér þjónustu á sviði náms- og starfsráðgjafar, mats á raunfærni, fræðslugreiningum fyrirtækja og eftirfylgni með fræðsluáætlunum. Á árinu var gerður þjónustusamningur við. Síldarvinnsluna til tveggja ára um fræðslu og framkvæmd námskeiða og farið af stað með greiningarvinnu í gegnum Fræðslustjóra að láni fyrir bátsmenn og landvinnslu. Einnig var gerður samningur við Heilbrigðisstofnun Austurlands um framkvæmd fræðsluáætlunar starfsmanna til tveggja ára. Austurbrú tekur einnig að sér að skipuleggja nám og námskeið eftir óskum fyrirtækja, stofnana og frjálsra félagasamtaka. Talsverð aukning er á slíku.
Eitt umfangsmesta verkefnið þar tengdist samningi við Umhverfisstofnun um að bjóða fram nám fyrir leiðsögumenn á hreindýraveiðum. Námið náði yfir þrjá mánuði
og var hvoru tveggja í stað og fjarnámi með um 32 nemum. Austurbrú sér um Stóriðjuskóla Alcoa sem telur nú um 25 nema í grunn- og framhaldsnámi.
Austurbrú býður fram þjónustu til einstaklinga af erlendum uppruna, aðilum með stutta formlega skólagöngu og einstaklinga með fötlun. Íslenskunámskeiðin njóta vinsælda og voru þátttakendur tæplega 300 á námskeiðum sem haldin voru víða á Austurlandi. Nokkrar námsleiðir voru í boði, þ.e. Félagsliðagátt, Samfélagstúlkur, Líf og heilsa og Stökkpallur. Einnig fór af staða tilraunaverkefni í samstarfi við Fjölmennt, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Vinnumálastofnun og nokkra vinnuveitendur á svæðinu um 180 klst námsleið fyrir fólk með fötlun sem bar heitið Færniþjálfun á vinnumarkaði. Þetta var bóklegt og verklegt nám fyrir einstaklinga sem vilja fara inn á vinnumarkaðinn og fá staðfestingu á hæfni með Fagbréfi atvinnulífsins. Sex nemar sóttu námið og tóku starfsþjálfun við félags- og þjónustustörf, á leikskóla og í verslun.
Af öðrum verkefnum má nefna:
- Skipaður var stýrihópur með fulltrúum Austurbrúar og grunn- og framhaldsskólum á Austurlandi til að skipuleggja Starfamessu sem haldin var 19. september í íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum fyrir tvo elstu bekki grunnskólanna á Austurlandi og fyrsta bekk í framhaldsskólunum. Alls sóttu hana 448 nemar og 35 fyrirtæki.
- Þátttaka í samráðsvettvangi samstarfsaðila á Austurlandi um Öruggara Austurland. Komið að skipulagningu tveggja vel sóttra samráðsfunda að vori og hausti.
- Áframhaldandi vinna við íslenskuappið Lísu – lærum íslensku. Á árinu fór mesta vinnan í að smíða appið. Það var á höndum Stokks sem skilaði af sér frumhönnun undir lok árs.
- Aðild að Erasmus+ um endurmenntun erlendis. Í gengum þann samning voru skipulagðar tvær ferðir: Annars vegar fóru 7 starfsmenn atvinnu- og byggðaþróunarteymis daganna 3.-5. apríl til Nordregio og Region Stokkhólm í Svíþjóð. Hins vegar fóru 4 starfsmenn og 3 einstaklingar frá fyrirtækjum í matarmenningar- og byggðaþróunarferð til Noregs 1.-5. maí.
- Hæfnisetur ferðaþjónustunnar fór af stað með verkefni er tengist fræðslugreiningum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í ferðaþjónustu sem nefnist Færni til framtíðar. Tvö fyrirtæki óskuðu eftir frekari kynningu sem teymið tók að sér að veita með fræðslu hjá fyrirtækjunum.
Fræðsluteymi Austurbrúar sinnir eins og sjá má, afar fjölbreyttum verkefnum. Auk þess situr yfirverkefnastjóri í stjórn Símenntar, samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva og stjórnar Samtaka þekkingarsetra og einn verkefnastjórinn í fræðslunefnd náms- og starfsráðgjafa.
Fræðsluteymið er ávallt boðið og búið að sinna verkefnum á sviði fræðslumála fyrir íbúa, fyrirtæki og stofnanir á Austurlandi sem og að vinna að þróunarverkefnum í málaflokknum með öðrum stofnunum, innanlands sem utan.

Yfirverkefnastjóri fræðslu
Ásdís Helga Bjarnadóttir