Verðmætasköpun og lífsgæði á Austurlandi

Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) hefur látið taka saman gögn sem sýna glöggt bæði samstöðu og gríðarleg efnahagsumsvif landshlutans. Þar kemur skýrt fram hversu mikilvægt það er fyrir þjóðarbúskap Íslands að verðmætasköpun haldi áfram á Austurlandi.

Ánægjulegt hefur verið að sjá vaxandi meðvitund íbúa Austurlands, sem og annarra landsmanna og þingmanna, á lykiltölum efnahagsgreiningarinnar. Slík vitund bætir umræðuna, eflir samtakamátt og líkurnar á að sanngjörn hlutdeild fjár­muna skili sér til baka sem styður samhliða við áframhaldandi verðmætasköpun.

Skýr skilaboð landshlutans

Svæðisskipulag Austurlands 2022–2044 mótar sameiginlega framtíðarsýn sveitar­félag­anna um helstu hagsmuna­mál lands­hlutans.

Staða geðheilbrigðismála kallaði fram skýra samstöðu á haustþingi SSA í Hallorms­stað, þar sem samþykkt var ályktun um að stór­efla þyrfti aðgengi að þjónustu. Framfara­mál hafa verið unnin í kjölfarið, auk þess sem nýlegt samtal við heilbrigðisráðherra og forstjóra HSA endurspeglar vilja til enn frekari umbóta.

Haustþingið lagði einnig ríka áherslu á öruggt og greiðfært vegasamband innan Austurlands og við aðra landshluta. Skorað var á stjórnvöld að samþykkja nýja samgönguáætlun án tafar og hefja hringtengingu Austurlands í samræmi við gildandi svæðisskipulag. Þessar áherslur voru jafnframt áréttaðar í nýlegu samtali, bæði við samgönguráðherra og forsætis­ráðherra.

Raforkuöryggi er Austurlandi afar mikil­vægt. Öll sveitarfélög í landshlutanum samþykktu samstíga bókun um þörfina fyrir aukna orkuframleiðslu, sem stjórn SSA tók undir. Þessar áherslur endurspeglast í svæðisskipulagi, sóknaráætlun Austurlands og ályktunum haustþingsins.

Lífsgæði Austurlands – tækifæri til framtíðar

Byggðaþróun á Austurlandi er hægfara en jákvæð. Á svæðinu er til staðar stórbrotin náttúra, lífsgæði, öryggi, hæglæti, góð þjónusta, fjölbreytt afþreying og öflugt menningarlíf. Framboð á grunnþjónustu allt frá tryggu framboði á leikskólaplássum til öflugrar þjónustu við aldraða, ásamt traustum innviðum og fjölbreyttum atvinnu­tækifærum sem finnast víða um Austurland.

Framfaraskref hafa verið stigin á síðustu árum með auknum möguleikum til fjarvinnu og fjarþjónustu sem styður við jákvæða byggðaþróun. SSA hyggst á árinu 2025 stíga frekari skref í markaðssetningu á Austurlandi og nýta einfalt og áhrifaríkt myndefni til að sýna fram á þau lífsgæði og tækifæri sem svæðið býður upp á.

Efnahagsumsvif Austurlands

Greining á efnahagsumsvifum Austurlands, sem SSA lét vinna árið 2023, sýnir að Austurland leggur til tæplega fjórðung af verðmæti vöruútflutnings Íslands, um 240 milljarða króna þrátt fyrir að íbúar svæðisins séu aðeins um 3% þjóðarinnar.

SSA hefur ítrekað lagt áherslu á að fjárfesting í innviðum Austurlands sé sanngirnismál. Þá hafa landshluta­samtökin kallað eftir því að tekjustofnar sveitarfélaga verði styrktir þannig að gjöld sem ríkið hyggst innheimta af ferðaþjónustu, fiskeldi og sjávarútvegi skili sér til þeirra byggða þar sem verðmætasköpunin fer fram. Jafnframt hefur aukinn kostnaður færst frá ríki til sveitarfélaga án nægilegrar mótfjármögnunar, sem dregur úr getu sveitarfélaga til að veita grunnþjónustu.

Landsbyggðarskattar herja á landsbyggðina

Stjórn SSA gætir hagsmuna Austurlands með virkri þátttöku í opinberri umræðu og gagnrýni þegar tilefni er til. Sem dæmi má nefna gjaldtöku á bílastæðum við Egilsstaðaflugvöll. Íbúar þurfa reglulega að sækja þjónustu suður og 14 klukkustunda gjald­­frjáls tímarammi er óraunhæft tíma­markmið til að íbúar geti sinnt sínu erindi innan þeirra tímamarka. SSA mun áfram beita sér fyrir réttlátari og raunhæfari lausn í þessum efnum.

Einnig hefur SSA gagnrýnt fyrirhugaða skatt­lagningu á atvinnugreinar sem lands­byggðin byggir á, svo sem sjávarútveg, fiskeldi og ferðaþjónustu. Sveitarfélögin hafa bent á að hvorki hafi farið fram greining á áhrifum þessara skatta né viðunandi samráð við sveitarstjórnarstigið.

Látum rödd Austurlands heyrast

Tækifærin á Austurlandi eru óteljandi. Á sama tíma og eldgos ógna flugumferð við Keflavíkurflugvöll bíður Egilsstaðaflugvöllur enn fjármagns til uppbyggingar, þrátt fyrir að hann sé skilgreindur sem for­gangsverkefni  í uppbyggingu vara­flugvalla í gild­andi flugstefnu Íslands. Þar eru hvorki jarð­hræringar né hindranir – aðeins tækifæri.

SSA mun áfram berjast fyrir fjárfestingu í innviðum Austurlands og réttlátri hlut­deild í sameiginlegum gæðum þjóðarinnar. Einnig verða stigin frekari skref í markaðs­setningu á Austurlandi til að sýna fram á lífsgæði og þau tækifæri sem svæðið býður upp á.

Við höfum góð fagleg gögn og öfluga rödd og munum láta hana heyrast.

formaður SSA


Berglind Harpa Svavarsdóttir