Gæðavottun EQM+
Austurbrú fékk gæðavottun samkvæmt EQM+ staðli í maí 2019. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur umsjón með vottunarferlinu í samstarfi við vottunaraðila frá Vaxandi ráðgjöf ehf. Lög um framhaldsfræðslu kveða á um að viðurkenndir fræðsluaðilar vinni samkvæmt gæðakerfi með áherslu á nám fullorðinna. EQM-vottun á gæðum fræðslustarfs Austurbrúar fékkst fyrst í byrjun árs 2013 en 2019 bættist við gæðavottun raunfærnimats og náms- og starfsráðgjafar.
Gæðastjórnun felst fyrst og fremst í skynsamlegum og öguðum vinnubrögðum sem miða að því að ná betri árangri og koma í veg fyrir mistök. Viðmið og leiðbeiningar eru til þess ætlaðar að tryggja gæði og eru í raun tæki til að skapa sameiginlegan skilning á því hvernig best verður komið til móts við væntingar viðskiptavinarins. Á árinu 2021 var farið yfir sjálfsmatslista EQM+, gæðamarkmið og niðurstöður námskeiðsmats. Hafin var vinna við að koma gæða handbókum og öllum skjölum starfsmannahandbókar fyrir á innri vefsvæði Austurbrúar til að tryggja betra aðgengi fyrir starfsmenn og auðveldara utanumhald um þessi mikilvægu skjöl.
Hjá Austurbrú er áhersla lögð á gæði í allri starfsemi stofnunarinnar og starfandi er gæðanefnd. Þótt formega séð eigi EQM+ vottunin aðeins við verkefni framhaldsfræðslu er markmiðið að gæðahugsun nái um alla starfsemina. Hlutverk gæðanefndar eru m.a. að fara árlega í gegnum sjálfsmatslista EQM+, gera úrbætur þar sem þörf er á, skilgreina gæðamarkmið fyrir allt fræðslustarfið, bregðast við ábendingum og kvörtunum sem berast og fara í gegnum námskeiðsmat sem nemendur fylla út að loknum námskeiðum.