Í þessu árferði er mikilvægt að halda áfram að efla áfangastaðinn og styrkja innviðina. Skiptir þróun hans og markaðssetning mestu máli til að gera hann að fýsilegum valmöguleika fyrir erlendar ferðaskrifstofur í leiguflugi eða erlend flugfélög.
Það sem af er ári hefur aukin áhersla verið lögð á að vinna áfram með þætti sem styðja við ímynd Austurlands sem áfangastaður og má þar nefna verkefni við eflingu matarmenningar, hönnun innkomuleiða, þróun ferðaleiða og áfangastaða innan Austurlands sem og almenna ásýnd áfangastaðarins. Unnið er í að rýna markaðsefni og koma með úrbótahugmyndir auk þess sem unninn hefur verið grunnur að sameiginlegri markaðssetningu flugvallanna á Egilsstöðum og Akureyri með Markaðsstofu Norðurlands og Isavia
Lykillinn að velgengni og sjálfbæru flugi er að áfangastaðurinn standi upp úr á heimsvísu og að innviðir á Austurlandi séu til staðar til að taka á móti reglubundnu flugi. Þá skiptir máli að áfangastaðir innan Austurlands séu þróaðir áfram og að stöðugt framboð sé á nýjungum og nýsköpun í vörum og þjónustu. Austurland keppir ekki einungis við suðvesturhornið heldur allan heiminn.
Alþjóðagáttir Austurlands – Egilsstaðaflugvöllur
Listakonan Rán Flygenring lauk á árinu við að myndskreyta Seyðisfjarðarhöfn þar sem Norræna kemur að landi. Verkefnið með Egilsstaðaflugvöll er framhald af því og miðar að því að ferðamenn upplifi Austurland og Ísland um leið og þeir lenda. Verkið sem Rán vann að núna var gert í samvinnu við Austurbrú, Isavia og sveitarfélagið Múlaþing. Markmið þess er að ferðamenn sem koma í gegnum Egilsstaðaflugvöll geti strax upplifað Austurland á skemmtilegan hátt og við brottför líka.