Fundir stjórnar
Á milli aðalfunda, sem telst starfsár stjórnar, voru haldnir alls 11 stjórnarfundir og voru flestir fundirnir fjarfundir. Þrátt fyrir samkomutakmarkanir sem voru þónokkrar á árinu þá náðist á tímabilinu að funda með tveimur sveitarfélögum, Fljótsdalshreppi og Vopnafjarðarhreppi. Á almanaksárinu er jafnframt reiknað með að funda með bæði Múlaþingi og Fjarðabyggð í samræmi við þá stefnu að staðfundir séu reglulega haldnir í hverju sveitarfélagi á starfssvæði SSA. Bæði í Fljótsdalshreppi og Vopnafjarðarhreppi var fulltrúum viðkomandi sveitastjórna boðið að koma til fundar við stjórn SSA auk þess sem stjórn fékk kynningu á ýmsum staðbundnum málefnum.
FundargerðirSamskipti
Samskipti við þingmenn kjördæmisins eru bæði með formlegum og óformlegum hætti. Landshlutasamtökin eru þannig byggð upp að samskipti milli kjörinna fulltrúa á Alþingi og stjórnarmanna sambandsins eru regluleg en margir kjörnir fulltrúar vildu gjarnan að þingmenn gæfu sér meiri tíma til samskipta hvort sem það er í kjördæmavikum eða utan þeirra. Þá hafa fulltrúar stjórnar SSA mætt til fundar hjá þingnefndum, ráðherrum, þingmönnum og ýmsum samstarfsstofnunum bæði á Austurlandi og í Reykjavík.
Á árinu hafa verið haldnir fjölmargir fundir með ýmsum hópum, bæði hjá ráðuneytum sem og öðrum sem óskað hafa eftir samtali við kjörna fulltrúa á starfssvæði SSA. Sambandið hefur komið að undirbúningi funda og jafnvel komið með fyrirlesara um einstök málefni úr landshlutanum inn á fundina. Ljóst er að með þróun rafræna fundaformsins þá hefur beiðnum um fundi fjölgað og möguleikar fulltrúa til að vera virkir þátttakendur í umræðu um fjölmörg málefni aukist.
Innri starfsemi
Stjórn SSA situr í stjórn Austurbrúar auk tveggja fulltrúa fagráðs Austurbrúar. Umfjöllun um starf Austurbrúar má finna í ársskýrslu stofnunarinnar. Starfsfólk Austurbrúar sinnir daglegum verkefnum á vegum sambandsins undir forystu framkvæmdastjóra sem forgangsraðar vinnunni í samráði við stjórn SSA. Bókhald SSA er unnið af Austurbrú og Skrifstofuþjónustu Austurlands auk þess sem endurskoðunarfyrirtækið KPMG á Austurlandi annast könnun ársreiknings. Starfsemi sambandsins er margþætt og má þar nefna umsagnir um frumvörp sem lögð eru fram á Alþingi og eftirfylgni með áherslum stjórnar SSA. Þá má einnig nefna vinnu við sóknaráætlun landshlutans, þróun svæðisskipulags og almenningssamgangna, samskipti við önnur landshlutasamtök, samskipti við þingmenn kjördæmisins, starfsmenn Stjórnarráðsins, sveitarstjórnarmenn og starfsmenn sveitarfélaga á starfssvæði SSA og íbúa Austurlands
Samband íslenskra sveitarfélaga
Landshlutasamtök sveitarfélaga
Samband íslenskra sveitarfélaga
Samband íslenskra sveitarfélaga gengst fyrir fundum og ráðstefnum sem fulltrúar SSA sækja eftir því sem við á.
Landsþing var haldið 21. maí 2021 og var það haldið rafrænt að þessu sinni. Var þar m.a. fjallað um breytingar á samþykktun sambandsins auk ávarpa og kynningar frá Framtíðarsetri Íslands. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur aukið þjónustu sína við sveitarfélögin jafnt og þétt og er hún landshlutasamtökum mikilvæg. Á árinu var fundað m.a. í tengslum við úrgangsmál, stafræna þróun, skilavegi, forvarnir, farsæld barna, jafnréttismál, fráveitur, húsnæðismál og fleira. Þá var fjármálaráðstefna sveitarfélaga haldin á haustmánuðum og sóttu formaður og framkvæmdastjóri ráðstefnuna.
Starfsmenn sambandsins eru í reglulegum samskiptum við Austurland og mikið af upplýsingum verið miðlað á milli í tengslum við bæði verkefni og áherslur.
Fulltrúi norðausturkjörsvæðis í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, Jón Björn Hákonarson, kom einu sinni til fundar við stjórn SSA og fór yfir þau málefni sem unnið er að á vettvangi stjórnar sambandsins.
Landshlutasamtök sveitarfélaga
Starf landshlutasamtaka sveitarfélaga byggir tilveru sína á ákvæði 97. gr. sveitarstjórnarlaga nr.138/2011 þar sem segir:
Sveitarfélögum er heimilt að starfa saman innan staðbundinna landshlutasamtaka sveitarfélaga er vinni að sameiginlegum hagsmunamálum sveitarfélaganna í hverjum landshluta. Starfssvæði landshlutasamtaka fer eftir ákvörðun aðildarsveitarfélaga sem staðfest hefur verið af ráðuneytinu. Landshlutasamtök skulu þó aldrei vera fleiri en átta á landinu öllu. Sveitarfélög sem liggja innan starfssvæðis landshlutasamtaka eiga rétt á aðild að þeim. Ráðuneyti og opinberar stofnanir skulu ávallt leita umsagnar hlutaðeigandi landshlutasamtaka um stefnumótun eða ákvarðanir sem varða viðkomandi landsvæði sérstaklega. Landshlutasamtök geta með samningum eða samkvæmt heimildum í sérlögum tekið að sér verkefni eða aðra starfsemi sem tengist hlutverki þeirra skv. 1. mgr., svo sem verkefni tengd byggðaþróun eða öðrum sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga.
Framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna funda reglulega og miðla efni og upplýsingum sín á milli. Einnig eiga landshlutasamtökin samstarf um ýmis verkefni sem talin eru gagnast landsbyggðinni í heild.
Á vettvangi landshlutasamtakanna eru alla jafna haldnir þrír reglulegir fundir ár hvert þar sem farið er yfir mál sem bera hæst í landshlutunum; haustfundur, vorfundur og sumarfundur. Fundarskipulagið hefur hliðrast aðeins til vegna samkomutakmarkana sem vörðu hluta af starfsárinu. Þrátt fyrir það funduðu formenn og framkvæmdastjórar í Reykjanesbæ í haust í tengslum við fjármálaráðstefnu Sambands sveitarfélaga sem haldin var í Reykjavík í október sl.
Helstu verkefni SSA árið 2021
Samningur um sóknaráætlun
Stjórn SSA vann að framkvæmd samnings um sóknaráætlun 2020-2024 á starfsárinu. Ákveðið var að næst yrði unnið að uppfærslu sóknaráætlunar á árinu 2023 þegar fyrir lægi Svæðisskipulag Austurlands sem stefnt er að síðla árs 2022. Úthlutað var úr Uppbyggingasjóði snemma árs 2021 og aftur snemma árs 2022 og skilgreind voru áhersluverkefni af stjórn.
Skipting fjármuna frá ríkisvaldinu til verkefna í landshlutanum í gegnum sóknaráætlun er eitt af viðfangsefnum landshlutasamtakanna. Fulltrúar SSA hafa lagt ríka áherslu á að við skiptingu fjármagns sé tekið tillit til mismunandi aðstæðna landshlutanna, s.s. hvað varðar fjarlægð og þéttleika byggðar.
Á haustmánuðum heimsótti stýrihópur stjórnarráðsins um byggðamál Austurland og fundaði þar um framgang sóknaráætlunar landshlutans. Komu fulltrúar frá átta ráðuneytum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnun austur þar sem fundað var með fulltrúum stjórnar.
Byggðaáætlun
Landshlutasamtökin tengjast ýmsum verkefnum í gegnum byggðaáætlun og hafa umsjón með sumum þeirra. Þar má nefna að eingöngu landshlutasamtök gátu sótt um framlög til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða. SSA gerði það og fékk eitt nýtt verkefni styrk á árinu 2021 auk þess sem 2022 er lokaár verkefnis sem fékk úthlutað árið 2019. Á árinu 2021 var unnið að byggðaáætlunarverkefnunum Náttúruvernd og efling byggða með aðkomu Náttúrustofa Austurlands auk þess sem Austurbrú vann að greiningu á samstarfi safna á grundvelli áherslna í byggðaáætlun. Þá hefur á grunni almenningssamgangna verið unnið að þremur verkefnum á Austurlandi sem klárast á árinu 2022; farveitum, fólk og farmi og rannsókn á Loftbrú.
Svæðisskipulag Austurlands
Eitt áhersluverkefna sóknaráætlunar er svæðisskipulag Austurlands og hefur verið mikill gangur í þeirri vinnu á starfsárinu hjá svæðisskipulagsnefnd SSA. Frumdrög lágu fyrir snemma árs 2021 og voru þau kynnt á fundi sem fram fór í framhaldi af aðalfundi SSA sumarið 2021. Vinnslutillaga var til umfjöllunar á haustþingi SSA 2021 þar sem umræðan var tekin með kjörnum fulltrúum um framtíðina á Austurlandi sem innlegg í vinnu svæðisskipulagsnefndar. Kynningartillaga fer í umsagnarferli sumarið 2022 og fái endanlega staðfestingu í beinu framhaldi. Austurbrú hefur haldið utan um verkefnið fyrir SSA og hefur Alta unnið að gerð svæðisskipulagsins með nefndinni.
Almenningssamgöngur á Austurlandi
Skipulag og rekstur almenningssamgangna á Austurlandi heyrði undir starfssvið SSA á árinu 2021. Daglegur rekstur fór fram undir merkjum Sv-AUST sem er félag í fullri eigu SSA. Sitja þar í stjórn Einar Már Sigurðarson, formaður, Björn Ingimarsson og Jón Björn Hákonarson. Síðla árs 2021 var orðið ljóst að ekki næðust samningar við Vegagerðina til áframhaldandi rekstur á þeim forsendum sem upp var lagt með. Fór svo að Vegagerðin óskaði eftir því að taka yfir samninga sem gerðir voru á grundvelli útboðs sem fram fór á árinu 2021 vegna aksturs sem hófst í janúar 2022. Gengið var frá samningum og tók Vegagerðina aftur við verkefninu frá og með áramótum 2021/2022.
SSA stendur enn í málaferlum í tengslum við rekstur almenningssamgangna á Austurlandi sem að uppistöðu til er frá árinu 2012 þegar SSA fór fram á lögbann á grunni sérleyfis. Fjallað er um stöðu málsins í skýringu í ársreikningi.
Seta í skólanefndum
Eftirfarandi aðilar sátu í skólanefndum fyrir hönd SSA á árinu 2021.
Í stjórn Hallormsstaðaskóla sitja Gunnar Jónsson og Pálína Margeirsdóttir.
Í skólanefnd Verkmenntaskóla Austurlands sitja Jón Björn Hákonarson og Anna Margrét Sigurðardóttir.
Í skólanefnd Menntaskólanum á Egilsstöðum sitja Skúli Björn Gunnarsson og Anna Björk Guðjónsdóttir.
Atvinnuþróunarsjóður Austurlands
Á aðalfundi 2018 var samþykkt tillaga um að leggja Atvinnuþróunarsjóð Austurlands niður og stjórn falið að ganga frá því að leysa sjóðinn upp og ráðstafa eigum hans. Unnið er að niðurlagningu sjóðsins og verið að ganga frá ýmsum málum sem ljúka ætti á árinu 2022.
Verkefnastjórnir tengdar einstökum verkefnum
SSA átti fulltrúa í verkefnisstjórnum Brothættra byggða á starfsárinu. Árið 2021 var lokaár Borgarfjarðar eystri í verkefninu en verkefnið bar yfirskriftina Betri Borgarfjörður. Í verkefnistjórninni sat Stefán Bogi Sveinsson sem fulltrúi SSA. Lokafundur fer fram á árinu 2022. Stöðvarfjörður er nýtt byggðalag í þessu verkefni. Hefst verkefnið með íbúafundi í mars 2022 og fékk það heitið Sterkur Stöðvarfjörður. Í verkefnastjórn situr Alda Marín Kristinsdóttir sem aðalmaður fyrir Austurbrú/SSA og Ásdís Helga Bjarnadóttir sem varamaður. Verkefnið Brothættar byggðir er leitt af Byggðastofnun en dagleg verkefnastjórn er í höndum starfsmanna Austurbrúar.
Einar Már Sigurðarson, formaður SSA, situr í verkefnastjórn Seyðisfjarðarverkefnisins og byggir hún á grunni samnings stjórnvalda við Austurbrú og Múlaþing sem til kom í framhaldi af aurskriðum er féllu í desember 2020. Einnig situr formaður SSA í verkefnisstjórn í tengslum við samstarf HA og HR á Austurlandi á sviði háskólamála en sú verkefnisstjórn byggir á samningi við ráðuneyti háskólamála.
Í öllum þessum verkefnastjórnum hafa verið reglulegir fundir á starfsárinu.