Á mánudag sótti hópurinn Neskaupstað heim. Þar komu saman fulltrúar frá átta ráðuneytum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnun. Á móti hópnum tóku framkvæmdastjóri og yfirverkefnastjórar Austurbrúar, þær Jóna Árný Þórðardóttir, Signý Ormarsdóttir, Tinna K. Halldórsdóttir og Guðrún Á. Jónsdóttir en með þeim voru einnig formaður og varaformaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, þeir Einar Már Sigurðarson og Gauti Jóhannesson.

Á fundinum var m.a. farið yfir Sóknaráætlun Austurlands, vinnulag við Uppbyggingarsjóð Austurlands og nokkur áhersluverkefni kynnt, þ.m.t. svæðisskipulag Austurlands. Þá var rætt um hversu treglega gengur fyrir einstaklinga og fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins að sækja um og fá opinbera landsdekkandi styrki, ekki síst hjá Rannís og rætt um reiknireglu framlaga til sóknaráætlana svo eitthvað sé nefnt.

Fundurinn var haldinn í Múlanum, samvinnuhúsi í Neskaupstað, sem er nýuppgert og að hluta til nýtt glæsilegt hús sem hýsir margvíslega starfsemi, meðal annars eina af starfsstöðvum Austurbrúar. Gestunum var kynnt starfsemi Náttúrustofu Austurlands og alþjóðlega fyrirtækisins Nox Health en hvort tveggja hefur bækistöðvar í Múlanum. Loks heimsótti hópurinn fyrirtækið Tandrabretti ehf. í Neskaupstað og fræddist um starfsemi þess, en fyrirtækið hefur hlotið styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands.