Spennandi tækifæri framundan

formaður SSA


Einar Már Sigurðarson

Sameiginleg framtíðarsýn í mótun

Á bak við öll verkefni Sambands sveitarfélaga á Austurlandi fer fram mikil samvinna og samtal við sveitarfélög og aðra hagaðila. Að venju einkenndist því starfsárið af reglulegu samráði og áframhaldandi þróun fjölmargra verkefna sem unnið hefur verið að á vettvangi sambandsins á undanförnum árum og misserum. Flest verkefnin okkar hafa gengið eftir í samræmi við áætlanir á meðan önnur hafa tekið breytingum, eins og rekstur almenningssamgangna á Austurlandi, svo dæmi sé nefnt.

 

Svæðisskipulag að verða til

Við sem störfum á vettvangi sveitarstjórnmála á Austurlandi trúum því að með góðu samstarfi sé hægt að gera Austurland að öruggum og góðum stað til búa á, starfa í og heimsækja.

Það er því sérstaklega ánægjulegt að segja frá því að á síðasta starfsári komst góður skriður á vinnu við gerð svæðisskipulags fyrir landshlutann.

Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044 inniheldur fyrstu útgáfu sameiginlegrar framtíðarsýnar fyrir landshlutann. Í því kemur fram hvernig við viljum að samfélagið okkar þroskist og þróist á næstu tveimur áratugum eða svo og hvernig við getum samræmt markmið okkar við þá framtíðarstefnu sem þjóðir heimsins hafa sett sér og birtast okkur m.a. í heimsmarkmiðum SÞ.

Þann 21. mars 2022 hófst formlegt umsagnarferli við kynningartillögu sem svæðisskipulagsnefnd SSA hefur unnið að og nú stendur yfir vinna við að bregðast við þeim athugasemdum sem bárust. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem lásu yfir þetta yfirgripsmikla plagg og gáfu sér tíma til að skila inn athugasemdum og umsögnum. Það skiptir áframhaldandi vinnu við svæðisskipulagsgerðina miklu máli.

 

Spennandi tækifæri framundan

Sem fyrr segir snýst vinna okkar á vettvangi SSA að stórum hluta um samstarf, samvinnu og samtal. Það skiptir máli að sveitarstjórnarfulltrúar vinni af heilum hug í slíku samráði og að samskiptin einkennist af heiðarleika og trausti.

Ég vil þakka stjórn SSA, sveitarstjórnarmönnum á Austurland, úthlutunarnefnd og fagráðum Uppbyggingarsjóðs, þingmönnum, ráðuneytum og öðru samstarfsfólki gott og gefandi samstarf á liðnu starfsári.

Þá vil ég þakka starfsfólki Austurbrúar sérstaklega fyrir vel unnin störf en árið 2022 fagnar stofnunin tíu ára afmæli.

Við sem höfum fylgst með frá upphafi vitum að þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í byrjun á Austurbrú sér bjarta framtíð með spennandi tækifærum og möguleikum á að láta gott af sér leiða. Við sjáum á sjóndeildarhringnum áframhaldandi kröftugt starf stofnunarinnar færa Austfirðingum öllum bættan hag.

Ég óska starfsfólki Austurbrúar og öllum Austfirðingum til hamingju með áfangann!