Austurlandið er okkar allra

Hefð fyrir samvinnu á Austurlandi er löng og mikil. Stofnun Austurbrúar árið 2012 var því á vissan hátt eðlilegt framhald í því ljósi. En engu að síður var tilurð hennar ekki sjálfsögð og það hefði eflaust verið hægt að finna margar ástæður til að halda stöðunni óbreyttri. Það var ekki gert og nú er Austurbrú tíu ára.

Ég tel að þarna hafi áræðni og framsýni stofnenda Austurbrúar skipt sköpum og þökk sé breiðum hópi hagaðila og öflugs starfsfólks fagnar stofnunin nú í maí sínu fyrsta stórafmæli.

Sterkur og auðugur landshluti

Austurland er sterkur landshluti. Um það þarf enginn að efast.

Við þorum að breyta því sem ekki virkar og við þorum að prófa það sem er nýtt og óreynt. Við tökum forystu í breytingum en bíðum ekki endilega eftir því einhver segi okkur hvernig gera skuli hlutina. Við erum samheldið samfélag og stöndum þétt saman þegar áföll dynja á okkur.

Austurland er líka auðugur landshluti. Um það þarf heldur enginn að efast.

Við erum rík af auðlindum af ýmsu tagi og í umhverfi okkar eru ótal tækifæri sem við þurfum að grípa svo byggja megi fleiri öflugar stoðir undir samfélagið og gera því þannig kleift að takast á við þær áskoranir sem bíða okkar.

Sýn og samstaða

Á þessum tímamótum í sögu Austurbrúar liggur fyrir kynningartillaga að fyrsta svæðisskipulagi Austurlands. Í því skilgreinum við helstu áskoranir framtíðarinnar og setjum okkur markmið til ársins 2044 um hvernig skuli bregðast við þeim.

Það hefur verið einstaklega gefandi að fylgjast með vinnu svæðisskipulagsnefndar SSA sem í sitja fulltrúar hvaðanæva úr landshlutanum og mér er það ljóst, að þótt við séum dreifð um landshlutann, erum við með eitt hjarta.

Með skýra sýn, öfluga samstöðu, samvinnu og áræðni þá eru okkur allir vegir færir.

Austurland er okkar.