Verkefnið Fögur framtíð í Fljótsdal fór af stað haustið 2019 og var skilgreint til ársloka 2022 með samningi Fljótsdalshrepps við Austurbrú. Þetta var því síðasta ár verkefnisins eins og það var skilgreint. Verkefnastjóri kom að því að skipuleggja viðburði, veita einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum aðstoð við ýmis verkefni, aðstoða við þróu og mótun verkefna og rýna styrkumsóknir, auk þess að vera starfsmaður Samfélagssjóðs Fljótsdals sem vistaður er hjá Austurbrú.
Framtíðarsýn og markmið verkefnisins Fögur framtíð í Fljótsdal voru í upphafi sett fram í fjórum meginmarkmiðum og hefur sú áhersla lítið breyst milli ára, þ.e. skapandi og samheldinn mannauður, sjálfbær landbúnaður og nýting náttúruauðlinda, góð búsetuskilyrði og öflugir innviðir, einstök náttúra og saga.
Skapandi og samheldinn mannauður
Hið Fljótsdælzka handverksfjelag var endurvakið en það hafði legið í dvala í ein tíu ár. Tilgangur félagsins er að standa fyrir fræðslu og námskeiðum er tengjast hverskonar handverki og að hvetja til þátttöku almennings í að viðhalda þekkingu og vinnubrögðum á gömlu handverki. Félagið vill auk þess hvetja til þess og styðja að aðilar hanni og þrói handverk til sölu er byggir á hráefnum eða sérstöðu dalsins. Félagið stóð að viðburðum og námskeiðum á árinu, s.s. Tóvinnunámskeiði, tálgað í ferskan við og torf- og grjóthleðsla þar sem endurgerður var reykkofinn í Vallholti. Í tengslum við verkefnið var boðið upp á fimmtudagskvöldgöngur frá júní og fram í ágúst þar sem heimamenn sáu um leiðsögn og reglulega voru handverkshittingar í Végarði. Einnig var staðið fyrir dags nýsköpunar- og fræðsluferð með heimsókn í Breiðdalinn (Beljandi Brugghús), Berufjörð (Gautavík og Lindarbrekku), Djúpavog (Lefever) og Hamarsfjörð (Bragðavelli). Réttardagurinn var elfdur með markaði, tónlistaratriðum og réttarballi, auk þess sem ýmislegt fleira var í boði til samveru og skemmtunar.
Sjálfbær landbúnaður og nýting náttúruauðlinda
Á tímabilinu fékkst styrkur úr Nýsköpunarsjóði námsmanna fyrir verkefnið Fljótsdælzkar sauðfjárafurðir. Neminn Sandra Harðardóttir tók verkefnið að sér og gerði könnun á áhuga sauðfjárbænda gagnvart samstarfi og úrvinnslu sauðfjárafurða. Í framhaldi varð til áhugahópur sem, m.a. fór og skoðaði vinnsluaðstöðu Sauðagulls á Egilsstöðum í Norðurdal sem var tekin í notkun í vor, sótti kjötvinnslunámskeið á Hallormstað og fékk til sín ráðgjafa frá Frávik ehf. Nokkur þróunarverkefni eru því komin af stað er tengjast sauðfjárafurðum. Skógarafurðir ehf. fjárfestu í sérsmíðaðri fjölblaða rammasög, fjölguðu þurrkklefum og breyttu atvinnuhúsnæðinu umtalsvert til aukinnar vinnuhagræðingar og framleiðslu. Einn megin sproti ársins voru Fljótsdalskönglar ehf. sem settu á markað 4 drykkjarafurðir úr jurtum og seldu í gegnum nokkra veitingaaðila á svæðinu. Gríðarlega flott vinna liggur þar að baki og vörurnar hlotið góða dóma. Sauðagull ehf. fjárfesti í nýjum matarvagni sem staðsettur var við Hengifossgilið í sumar og naut mikilla vinsælda. Staðið var fyrir viðburðinum Gersemar Fljótsdals – hönnunarsmiðja. Markmið hennar var að vekja athygli á því hráefni sem nýta má úr Fljótsdalnum og þeirri sérstöðu sem draga má fram í gegnum handverk og afurðir. Fjölmargir tóku þátt í hönnunarsmiðjunni og gafst þeim og öðrum sem framleiða og hann afurðir og vörur í dalnum að taka þátt í Sam- og sölusýningu í Végarði i upphafi aðvenntu. Um 12 sýnendur mættu til leiks og um 200 manns sóttu sýninguna sem var afar vel heppnuð. Mikil gróska er því í gangi hvað varðar nýtingu landbúnaðarafurða og náttúrugæða.
Góð búsetuskilyrði og öflugir innviðir
Unnin var Innviðagreining Fljótsdalshrepps er tekur saman upplýsingar um sveitarfélagið og fjárfestingatækifærin í dalnum. Rafræn húsnæðisáætlun var gerð og heimasíða sveitarfélagsins tekin til gagnverðar endurskoðunar. Inn á hana var tengt 360° sýndarferðalag um sveitarfélagið. Gengið var frá þjónustusamningum við Múlaþing er varðar skólagöngu barna og félags- og barnarverndarþjónustu. Unnið var áfram með fyrirhugaðan byggðakjarna í landi Hjarðabóls með leigusamningi við ríkið en vegna kröfu um eignarhald fór málið í bið. Málið var þingfest vorið 2021 og voru lögmenn tilbúnir til málaflutning í september 2021 en Héraðsdómur Austurlands hefur ekki enn sett málið á dagskrá. Þessi dráttur hefur komið samfélaginu mjög illa og haldið aftur af vexti fyrirtækja og stofnana á svæðinu – valdið samfélagslegum skaða. Gerð var áhugakönnun meðal landeiganda um virkjunarmöguleika. Í framhaldi fundaði áhugahópur um virkjun vindsins áfram og þó ekki síst í tengslum við viljayfirlýsingu Fljótsdalshrepps við Copenhagen Infrastructure Energy Transition Fund I K/S: „Aðilar að viljayfirlýsingu þessari lýsa yfir vilja sínum til að eiga samstarf vegna áforma Orkugarðs Austurlands (OGA) um rannsóknir og mögulega uppbyggingu og rekstur vindorkugarðs í Fljótsdalshreppi og samhliða eiga samstarf um að skoða tækifæri til þróunar og uppbyggingar á annarri atvinnustarfssemi í sveitarfélaginu sem tengist verkefninu beint eða óbeint, s.s. vegna tækninýjunga, hráefna sem til falla eða hagkvæmrar nýtingar raforku.“ Unnin voru drög að umhverfis- og loftslagsstefnu fyrir Fljótsdalshrepp og sett á leggirnar ný nefnd um þau mál sem jafnfremt tekur á náttúruverndarmálum. Miklar framkvæmdir áttu sér stað í sveitarfélaginu má þar m.a. nefna uppbyggingu atvinnuhúsnæðar, íbúðarhúsa og fjórtán herbergja hótels.
Einstök náttúra og saga
Áframhaldandi uppbygging var við Hengifossárgilið. Tvær brýr voru settar yfir gilið, neðst frá bílastæðinu og önnur mjög ofarlega í gilinu. Unnið var einnig að gerð göngustígar að norðanverðu og hafnar framkvæmdir fyrir nýtt þjónustuhús sem verður vonandi tekið í notkun sumarið 2023. Gönguleiðin að Strútsfossi var einnig bætt og brú um gilið lagfærð.
Undirbúningur er hafinn að endurgerð Hálskofa undir rótum Snæfells og byrjað að hlaða upp veggi Kúahlöðunnar á Langhúsum. Lokið var við að endurgera reykkofann í Vallholti. Haldið var áfram að safna örnefnum og við bættust Hrafnkelsstaðir, Vallholt og Bessastaðir. Gunnarsstofnun fékk úthlutað fjármagni úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til skráningu búsetuminja í dalnum. Að því komu nemarnir Sigríður Hlíðkvist Kröyer og Embla Guðjónsdóttir. Einstakt verkefni sem horft er til gagnvart tæknilausnum við skráningu minja í landslagi. Skipaður var starfshópur um verkefnið með aðkomu Minjastofnunar, Sagnabrunni, Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi og Fljótsdalshreppi.
Við afþreyingatækifærin bættust gönguskíðaferðir hjá Óbyggðasetrinu og ratleikir í gegnum Turfhunt appið, t.d. Leitin að tínda eldinum og skógarævintýri í Hallormsstaðaskógi. Áfram var unnið að gerð stígs með fljótinu og prufukeyraðar enduro motorhjólaferðir á vegum Hel-fjallahjólaferða ehf.
Samfélagssjóður
Á árinu 2022 var auglýst eftir umsóknum með fresti til 14. febrúar. Alls bárust 24 umsóknir þar sem heildarkostnaður verkefnanna var 74.123.360 kr. og sótt um 26.383.365 kr. Sjóðurinn úthlutaði á árinu alls 12.050.000 kr. Hæðstu styrkina fengu Könglar til þróunar á framleiðslu drykkjarafurða, Sauðagull fyrir vinnsluaðstöðu mjólkurafurða og Hörður Guðmundsson og Magnús Þorsteinsson fyrir framleiðslu Lífkols úr grisjunar og úrgangsvið.
Lokasamantekt verkefnis
Verkefnið Fögur framtíð í Fljótsdal var skilgreint til þriggja ára frá 2019 til 2022. Á þessum tíma hefur samfélagið náð að taka nokkur markviss skref í átt að þeim markmiðum og framtíðarsýn verkefnisins sem sett voru fram í upphafi þess. Má þar nefna að íbúum hefur fjölgað um 30%, frá 73 íbúum árið 2018 í 103 árið 2022. Áætlað er að ársverkefnum hafi fjölgað um 12,7% miðað við stöðuna 2018 til ársins 2021 og að eftir það hafi þeim fjölgað aðeins á árinu 2022 (sjá nánar í meðfylgjandi skýrslu). Fyrirtækjum hefur fjölgað um sjö, auk þess sem nýjar söluhæfar afurðir og þjónustuframboð hefur aukist til muna. Fjölgun hefur orðið á íbúðarhúsnæði, sumarhúsum, atvinnurýmum og hótel risið í sveitarfélaginu. Ferðaþjónustan hefur vaxi og unnið hefur verið markvisst að því að bæta innviði hennar. Jafnframt hefur verið lagður grunnur að frekari vexti nýrra sprota hvað varðar nýtingu afurða í tengslum við sauðfjárrækt og ræktun og nýtingu villtra jurta. Unnin hefur verið Innviðagreining sem gefur yfirlit yfir þjónustu, innviði, náttúru og mannauð í sveitarfélaginu með sérstakri áherslu á tækifærin sem til staðar eru til frekari uppbyggingar atvinnulífs og fjárfestinga. Sveitarfélagið mun áfram vinna með samfélaginu að því að móta næstu skref Fagrar framtíðar í Fljótsdals og leggja línur fyrir komandi ár.