Heimsfaraldurinn setti mark sitt á kennslu hjá Austurbrú á árinu 2020 og verkefnastjórar urðu að sýna sveigjanleika og skjót viðbrögð svo sem minnst röskun yrði á námskeiðahaldi. Eitt meginmarkmið Austurbrúar er að stuðla að fjölbreyttum menntunarmöguleikum fullorðins fólks á Austurlandi og vera samstarfsvettvangur fyrir aðila er vinna að verkefnum á sviði menntunar fullorðinna. Austurbrú vinnur að menntamálum samkvæmt óskum og þörfum atvinnulífs og almennings, bæði hvað varðar símenntun ófaglærðra og verkefni sem tengjast uppbyggingu á auknu framboði háskólanáms á svæðinu og þjónustu við fjarnema háskólanna.

Austurbrú veitir fólki í markhópi framhaldsfræðslu þjónustu sbr. lög um framhaldsfræðslu (27/2010). Þjónustan felst m.a. í kennslu samkvæmt námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, náms- og starfsráðgjöf og raunfærnimati en þetta eru verkefni sem styrkt eru af Fræðslusjóði. Austurbrú sinnir einnig margvíslegum öðrum fræðsluþörfum fullorðins fólks bæði á einstaklingsgrunni og í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir, til atvinnuleitenda í samstarfi við Vinnumálastofnun, fullorðinsfræðslu fatlaðra í samvinnu við Fjölmennt, kennslu í íslensku fyrir útlendinga og einnig býður Austurbrú fram margvíslegt nám fyrir almenning.

Á vorönn 2020 voru um 70 námsmannahópar í mismunandi námskeiðum hjá Austurbrú og voru þátttakendur alls um 790. Á haustönninni voru færri eða 47 námsmannahópar og um 430 þáttakendur. Um er að ræða námsmenn sem sækja námskeið og námsleiðir sem eru mjög mismunandi að lengd og uppbyggingu, allt frá nokkurra klukkustunda námskeiðum til námsleiða sem standa yfir í margar annir. Dæmi um námsframboð eru námsleiðir samkvæmt námskrám Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, námskeið í íslensku fyrir útlendinga, námskeið sérstaklega sniðin fyrir fatlaða, starfstengd námskeið, t.d. í tengslum við fræðsluáætlanir í fyrirtækjum og stofnunum og önnur námskeið af ýmsu tagi. Gerð verður nánari grein fyrir meginflokkum námskeiða hér að neðan.