Dagar myrkurs er sameiginleg byggðahátíð allra íbúa á Austurlandi sem hefur það að markmiði að hvetja til samveru íbúa. Hátíðin hefur sterka tengingu við íslenska og keltneska siði frá fornri tíð. Hátíðin var haldin um allt Austurland frá 31. október til 6. nóvember. Byrjað var fyrr en venjulega þar sem hrekkjavökuna bar upp á mánudag og hefð hefur skapast fyrir því að börnin í fjórðungnum fari í „grikk eða gott“ göngur. Hátíðin hefur verið haldin nánast samfellt frá árinu 2000 og er eitt elsta sameiginlega vörumerki fjórðungsins. Unnið var eftir nýrri aðgerðaáætlun sem samþykkt var vorið 2019.
Hátíðin tókst mjög vel. Til viðbótar við stýrihóp var verkefnastjóri í góðu samstarfi við markaðs- og þróunarteymi Áfangastaðastofu Austurlands hjá Austurbrú og komu mörg góð ráð þaðan sem nýtt voru inn í verkefnið. Alls voru skráð milli 40 og 50 verkefni á Austurlandi. Dreifing milli byggðakjarna var töluverð og fóru flestir viðburða fram á Vopnafirði, alls þrettán, átta á Héraði og sjö á Djúpavogi en aðrir byggðakjarnar voru með færri viðburði. Um var að ræða mjög fjölbreytta viðburði, t.d. tilboð á veitingum og þjónustu, fjölbreytta viðburði sem hvöttu til samveru fjölskyldna og vina, tónleika og margt fleira.
Eins og undanfarin ár var haldin ljósmyndasamkeppni og bárust alls 27 myndir í keppnina frá 15 þátttakendum. Sigurvegarinn í ár var Albert Sigurðsson frá Fáskrúðsfirði en myndin hans sýnir skipsflakið í Mjóafirði, umvafið norðurljósum.
Auk þess hvöttum við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir til að skreyta glugga og ákvað stýrihópurinn að blása einnig til keppni í þeim flokki. Aðeins tveir aðilar sendu inn myndir af gluggum og var það Elín Rún Sizemore frá Eskifirði sem bar sigur úr býtum.
Dagar myrkurs er eitt elsta vörumerki fjórðungsins og hefur hátíðin mótast að nýju eftir að farið var að vinna eftir nýrri aðgerðaáætlun. Gildistími þeirrar áætlunar rennur út á þessu ári og verður skemmtilegt að fara í áframhaldandi vinnu við að móta hátíðina til framtíðar.