Vinna við að efla áfangastaðinn Austurland er margþætt og snýst um að efla innviði, þróa áfangastaðinn og markaðssetja. Markviss vinna við að gera Austurland að vænlegum kosti fyrir erlend flugfélög og ferðaskrifstofur í leiguflugi, skilaði árangri um mitt ár, þegar þýska flugfélagið Condor tilkynnti 13. júlí að það hygðist hefja vikulegt leiguflug til Egilsstaða 2023. Flogið verður alla þriðjudaga frá Frankfurt til Egilsstaða frá miðjum maí til loka október og laugardaga til Akureyrar á sama tímabili. Þessi ákvörðun er árangur mikillar vinnu. Lögð hefur verið áhersla að styrkja ímynd Austurlands sem áfangastaðar, s.s. að þróa ferðaleiðir, innkomuleiðir og áfangastaði innan fjórðungsins og efla matarmenningu svo eitthvað sé nefnt. Austurbrú hefur átt góða samvinnu við stóran hóp hagaðila; innan ferðaþjónustunnar, opinbera aðila og í stoðþjónustu, auk þess sem sendiráð og ræðismenn á Íslandi og í Þýskalandi hafa aðstoðað í tengslum við flugin. Farið var í tvær ferðir til Þýskalands í maí og desember til að funda með ferðaskrifstofum og flugfélögum þ.m.t. Condor til að undirbyggja og undirbúa flug til Egilsstaða.
Þá hefur sameiginleg markaðssetning flugvallanna á Egilsstöðum og Akureyri með Markaðsstofu Norðurlands og ISAVIA skipt miklu en hún er viðleitni til þess að fjölga gáttunum inn í landið og þar með ferðafólki. Vikulegt flug Condor opnar mikla möguleika á svæðinu öllu en dregur um leið fram nauðsyn þess að þróa áfangastaði á Austurlandi áfram og að tryggja nægt framboð á gistingu og nýjungum í vörum og þjónustu. Starfsfólk Austurbrúar vinnur með aðilum í ferðaþjónustu á svæðinu þessu og hefur t.d., í samstarfi við Ferðamálastofu og Íslandsstofu, staðið að verkefninu Invest in Austurland sem miðar að því að laða að aukna fjárfestingu í ferðaþjónustu á svæðinu. Í tengslum við þetta var haldin kynning í Reykjavík í nóvember 2022 með fjárfestum og fjármögnunaraðilum til að kynna þeim möguleikana í boði á svæðinu.