Austurbrú fékk styrk úr Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar 2021 til að kanna viðhorf Austfirðinga til samgönguúrbóta á svæðinu auk þess sem könnuð var ferða- og þjónustusókn innan svæðis. Rannsókninni var ætlað að vera innlegg í umræðu um samgönguúrbætur sem eru eitt mikilvægasta hagsmunamál landsbyggðanna og varpa skýrara ljósi á mikilvægar spurningar sem vakna þegar rætt er um samgöngubætur í dreifðum byggðum. Niðurstöður þessarar rannsóknar geta nýst til að efla stefnumótun, áætlanagerð og jafnvel styðja við undirbúning samgönguúrbóta sem hafa bæði jákvæð og neikvæð áhrif á ýmsa þætti byggðaþróunar fyrir þau samfélög sem þau beinast að. Niðurstöður könnunarinnar gefa til kynna að Fjarðarheiðargöng séu mikilvægustu samgönguúrbæturnar sem liggja fyrir á Austurlandi. Þó er munur eftir búsetu svarenda hvaða samgönguúrbætur eru mikilvægastar. Borgfirðingar telja til að mynda Borgarfjarðarveg mikilvægastan, Djúpavogsbúar nefna Öxi og Breiðdælingar Suðurfjarðaveg.
Nánar um verkefnið