Eitt meginmarkmið Austurbrúar er að stuðla að fjölbreyttum menntunarmöguleikum fullorðins fólks á Austurlandi og vera samstarfsvettvangur fyrir aðila er vinna að verkefnum á sviði menntunar fullorðinna. Þetta felur t.d. í sér samvinnu við vinnustaði um símenntun fólks á vinnnumarkaði, námstilboð fyrir almenning, sérstök námstilboð fyrir fatlaða einstaklinga, kennslu í íslensku og samfélagsfræði fyrir innflytendur, samvinnu við Vinnumálastofnun og Starfsendurhæfingu Austurlands um menntun fyrir fólk í atvinnuleit og starfsendurhæfingu. Auk námskeiða er veitt náms- og starfsráðgjöf og þjónusta vegna raunfærnimats. Austurbrú vinnur að því að auka framboð háskólanáms á svæðinu og veitir nemendum í háskólanámi námsaðstöðu og þjónustu varðandi próftökur og fleira.

Á vorönn 2022 voru 66 kennsluhópar í mismunandi námskeiðum og námsleiðum hjá Austurbrú. Skráðir þátttakendur í námskeiðum voru samtals 964 í þessum hópum en sumir voru á fleiri en einu námskeiði og því sóttu 783 einstaklingar nám á vorönn. Á haustönninni var 51 kennsluhópur, 719 skráðir þátttakendur en alls sóttu 407 einstaklingar nám á önninni. Námskeið og námsleiðir sem Austubrú kennir eru mjög mismunandi að lengd og uppbyggingu, allt frá nokkurra klukkustunda námskeiðum til námsleiða sem standa yfir í þrjár annir.

Austurbrú notar nemendabókhaldskerfi Innu til að halda utan um allt nám sem fram fer hjá stofnuninni til að nemendur geti alltaf fegnið upplýsingar um námsferla sína. Einnig er verið að innleiða fræðslukerfið Learn Cove sem ætlað er að halda utan um fyrirtækjafræðslu og fleira. Austurbrú starfar eftir gæðakerfi EQM+ fyrir fræðsluaðila í fullorðinsfræðslu. Gæðavottunin felur í sér viðurkennd gæðaviðmið fyrir fræðslu, ráðgjöf um nám og störf og raunfærnimat.

Austurbrú er viðurkenndur próftökustaður fyrir fjarnema háskólanna og aðra sem þurfa eða kjósa að taka próf á Austurrlandi. Árið 2022 voru 713 próftökur hjá Austurbrú. Samstarf var á árinu milli Háskólans í Reykjavík (HR), Háskólans á Akureyri (HA) og Austurbrúar um að nemendur gætu lagt stund á tölvunarfræði á Austurlandi.

 

Í upphafi árs 2023 tók Ásdís Helga Bjarnadóttir við starfi yfirverkefnastjóra fræðslumála.