Aukum fjárfestingu í ferðaþjónustu

Austurland er vaxandi áfangastaður. Gestum hefur fjölgað ár frá ári, framboð afþreyingar hefur aldrei verið meira og við höfum vakið athygli langt út fyrir landsteinana sem áfangastaður náttúruunnenda, sjálfstæðra landkönnuða, dreifbýlisbóhema, makindalegra menningarvita og lífsglaðra heimsborgara svo notuð séu orð úr áfangastaðaáætlunAusturlands. Við erum einstakur áfangastaður og framúrskarandi gestgjafar. Austurland, þetta leyndarmál íslenskrar ferðaþjónustu, hefur kvisast út.

Það hefur margt haldist í hendur á síðustu árum: Uppbygging spennandi afþreyingar, feykilegathygli staða eins og Stuðlagils, baðstaðarins Vakar o.fl., aukin gæði og fagmennska í þjónustu og markaðssetningu. Hægt en stöðugt hefur áfangastaðurinn komist á kortið hjá ferðaþyrstum gestum sem þrá nálægð við náttúru, mat sem búinn er til úr ferskasta hráefni sem völ er á og hin persónulegu tengsl sem skapast á milli gesta og heimamanna í fámennum landshluta eins og okkar.

Austurland í tísku

Þrátt fyrir fjarlægðina við millilandaflugvöllin í Keflavík höfum við unnið vel úr okkar spilum. Aðdráttarafl okkar hefur aukist, slagkraftur ferðaþjónustuaðila hefur aldrei verið meiri og ég leyfi mér að fullyrða – og er ekki ein um það – að Austurland hafi komist í tísku á allra síðustu árum.

Það voru að sjálfsögðu mikil vonbrigði að þýska flugfélagið Condor skyldi hætta við flug milli Egilsstaða og Frankfurt nú á vordögum. Mikil vinna fór í verkefnið hjá Austurbrú og ferðaþjónustuaðilum eystra en því fer fjarri að sú vinna hafi öll farið í súginn.

Við stöndum betur að vígi. Við höfum átt samtal við ótal aðila innan greinarinnar og við vitum meira um umhverfið og þau tækifæri sem áfangastaður eins Austurland getur staðiðframmi fyrir á allra næstu árum. Ég tel það fullkomlega raunsætt mat að reglubundið millilandaflug, til og frá Austurlandi, verði að veruleika á næstu árum. Það er ekki spurning um hvort heldur hvenær það gerist.

Verðum við tilbúin?

En í þessari undirbúningsvinnu hefur önnur spurning orðið meira aðkallandi:

Verðum við tilbúin þegar kallið kemur?

Verður næg afþreying? Næg gisting? Nóg framboð af veitingastöðum?

Með öðrum orðum: Stöndum við undir því að stækka?

Það vantar ekki tækifærin á Austurlandi til uppbyggingar og þróun ferðaþjónustu á heimsvísu er okkur í hag –  vindáttin hagstæð ef svo má að orði komast. Gáttin til Austurlands mun opnast en svo hún haldist opin þarf ferðaþjónustan að eflast og stækka.

„Aukum fjárfestingu í ferðaþjónustu á Austurlands“ er yfirskrift málþings sem haldið er að loknum ársfundi Austurbrúar þann 3. maí 2023. Yfirskriftin er ákall til fjárfesta og samfélagsins á Austurlandi um að trúa á áfangastaðinn og þá framtíðarmöguleika sem þessi einstaki landshluti býr yfir til að taka á móti enn fleiri gestum.

Jóna Árný Þórðardóttir fyrir pistla

framkvæmdastjóri Austurbrúar


Jóna Árný Þórðardóttir