formaður SSA


Berglind Harpa Svavarsdóttir

Sameiginleg sýn er sterkasta vopnið

Sameiginleg framtíðarsýn og sterk einróma rödd er mikilvæg til að ná fram alhliða uppbyggingu í landshlutanum. Á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi heyrist sameiginleg rödd okkar og þar hafa á síðustu árum verið tekin mikilvæg framfaraskref fyrir áframhaldandi eflingu Austurlands.

Framtíðarsýnin klár

Þar á ég m.a. við Svæðisskipulag Austurlands 2022 – 2044 sem samþykkt var í svæðisskipulagsnefnd SSA þann 2. september 2022 og síðar staðfest af Skipulagsstofnun 12. október sama ár. Í svæðisskipulagsnefndinni sátu fulltrúar allra sveitarfélaga á Austurlandi og tókst þeim með glæsilegum hætti að setja fram raunhæfa og sameiginlega langtímastefnu fyrir Austurland í þeim málaflokkum sem hagsmunir sveitarfélaganna fara saman. Á grunni þessa skipulags eigum við að sækja fram.

Öflugir talsmenn og skýr málflutningur

Það eru fleiri þættir sem skipta máli til að tryggja aukið streymi fjármagns inn á svæðið. Ábyrgð okkar stjórnmálamanna er mikil og það skiptir sköpum að hafa öfluga talsmenn í hópi þingmanna og sveitarstjórnarfólks sem getur talað fyrir þá sameiginlegu sýn sem við höfum mótað. Þau verða líka að minna á þau miklu verðmæti sem atvinnulífið á Austurlandi skapar. Þau skila sér með ríkulegum hætti í þjóðarbúið og sú staðreynd á með réttu að tryggja skilning á okkar aðstæðum og vilja stjórnvalda til að tryggja áframhaldandi alhliða uppbyggingu í landshlutanum.

Fjárfestingar á Austurlandi

Í beinu framhaldi af ársfundum SSA og Austurbrúar þann 3. maí verður haldið málþing með yfirskriftinni Aukum fjárfestingar í ferðaþjónustu á Austurlandi.

Þetta er aðkallandi umræða því gríðarleg tækifæri eru framundan á Austurlandi til aukinna fjárfestinga í ferðaþjónustu. Öflugir seglar draga ferðamenn inn á svæðið og mikilvægt er að vinna að öflugri uppbyggingu og markaðssetningu Austurlands sem ýtir undir lengri dvöl okkar gesta á svæðinu þannig að Austurland verði í náinni framtíð að heilsársáfangastað.

Tímamót hjá Austurbrú

Austurbrú er öflug eining sem litið er til um allt land og vil ég nota þetta tækifæri til að þakka starfsfólki vel unnin störf á árinu. Ákveðin tímamót liggja nú fyrir því Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar frá árinu 2014, hefur ákveðið að stíga til hliðar. Hún hefur skilað góðu verki og vil ég fyrir hönd stjórnar SSA og Austurbrúar færa henni innilegar þakkir fyrir þau góðu og mikilvægu störf sem hún hefur unnið í þágu Austurlands. Nýr framkvæmdastjóri Austurbrúar, Dagmar Ýr Stefánsdóttir, tekur við góðu búi og óskum við henni góðs gengis. Við efumst ekki um að hún mun áfram leiða Austurbrú til góðra verka.