Pistill yfirverkefnastjóra
Lesa pistilStarfsemi fræðsluteymisins er afar fjölbreytt. Á árinu 2023 voru boðin fram um 98 námskeið og námsleiðir sem rúmlega 1200 einstaklingar sóttu. Alls voru tekin 723 próf á starfstöðvum Austurbrúar.
Stutt námskeið
Austurbrú sér um og skipuleggur námskeið, bæði fyrir almenning og fyrirtæki og stofnanir. Á árinu voru haldin ýmis námskeið með fjölbreyttum viðfangsefnum, t.d. dyravarðarnámskeið, námskeið fyrir verðandi flokkstjóra, sjúkraliða og matarfrumkvöðla, starfslokanámskeið, námskeið um prófkvíða, hugarfar og streitustjórnun fyrir háskólanema. Skyndihjálparnámskeið er stór partur af stuttu námskeiðunum á vorönn en Austurbrú heldur utan um og sér um skipulagið á grunn- og endurmenntunarnámskeiðum fyrir starfsfólk sundstaða en tæplega 60 mann sóttu slík námskeið á vorönninni. Að auki hefur Austurbrú umsjón með námsskeiðum fyrir fullorðið fólk með fötlun á Austurlandi.
Þjónusta við innflytjendur
Austurbrú sinnir fræðslu fyrir innflytjendur á Austurlandi og hefur m.a. staðið að íslenskukennslu fyrir þann hóp í fjölmörg ár en haldin voru 18 námskeið í íslensku fyrir útlendinga í sex byggðakjörnum á Austurlandi á liðnu ári. Þannig hefur skapast mikil reynsla og þekking innan stofnunarinnar sem hefur staðið að þróun kennsluefnis og undanfarið aðlagað það að Evrópska tungumálarammanum (CEFR). Með fjölgun fólks af erlendum uppruna kemur ákall um enn frekari þróun á kennsluefninu, að boðið sé uppá fjölbreyttari námsleiðir og að geta sinnt námi að einhverju leiti ókeypis og á hvaða tíma sem er. Nýjasta verkefni Austurbrúar á þessu sviði er því þróun íslenskukennsluappsins Lísu. Fræðslunámskeiðið Landneminn inniheldur hins vegar samfélagsfræðslu fyrir flóttafólk og aðra innflytjendur. Markmið námsins er að veita innsýn og almenna fræðslu um íslenskt samfélag og gefa nemendum tækifæri til að ræða það sem brennur á þeim enda óhjákvæmilegt að ýmsar spurningar vakni þegar fólk þarf að aðlagast nýjum aðstæðum í nýju landi.
NánarLengri námsleiðir
Fjölbreyttar námsleiðir eru í boði hjá Austurbrú í samstarfi við ýmsa aðila. Sem dæmi má nefna nám í stóriðju sem unnið er í samstarfi við Alcoa Fjarðaál, námsleiðina Stökkpall sem er í samstarfi við Starfsendurhæfingu Austurlands, grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk í samvinnu við sjávarútvegsfyrirtæki og námsleið sem er ætlað að auðvelda fólki af erlendum uppruna aðlögun að íslenskum vinnumarkaði og samfélagi.
NánarHáskólaþjónusta
Á vorönn stunduðu tveir nemar tölvunarfræði frá HR/HA í námsveri Austurbrúar á Reyðarfirði og fengu þar stuðning við nám sitt. Um haustið ákvað HA að sjá alfarið um þjónustuna við þá en fengu notið námsversins áfram. Fimm nemendur eru skráðir í tölvunarfræðina frá haustinu 2023 og sinna því á Reyðarfirði.
Um 118 háskólanemendur hafa nýtt sér aðstöðu og þjónustu Austurbrúar á árinu, þar af um 50 sem hafa fengið afhenta lykla af námsaðstöðu sem stendur til boða á Egilsstöðum. Nokkur aukning er á útleigu og afnot af aðstöðu Austurbrúar vegna starfa óháð staðsetningu opinberra starfsmanna og í tengslum við rannsóknaverkefni.
Á vormánuðum vann starfsnemi í náms- og starfsráðgjöf, Svala Björk Kristjánsdóttir undir handleiðslu Hrannar Grímsdóttur náms- og starfsráðgjafa hjá Austurbrú, verkefni þar sem aðstæður og þarfir háskólanema í fjarnámi á Austurlandi voru skoðaðar. Niðurstöðurnar liggja fyrir og verður unnið áfram með þær til að koma enn betur til móts við þarfir þess markhóps.
Í upphafi námsvetrar sendi Austurbrú háskólum landsins upplýsingar um þá þjónustu sem háskólanemum er veitt á Austurlandi, s.s. aðstöðu til próftöku, náms, aðgengi að náms- og starfsráðgjafa og raunfærnimat, auk örnámskeiða m.a. um tímastjórnun, skipulag, heimilda- og gagnasöfnun, prófkvíða og próftækni. Haldið er utan um samfélag háskólanema á Austurlandi með sérstakri Facebook-síðu þar sem upplýsingum er komið á framfæri.
Próftaka
Prófaumsýsla hefur verið umfangsmikil í starfi Austurbrúar undanfarin ár því próftökum þarf að sinna eftir formlegu verklagi um meðhöndlun prófa, skönnun og sendingu prófúrlausna, meðferð persónugreinanlegra gagna og fleira.
NánarFræðsla fyrir fyrirtæki og stofnanir
Starfsfólk Austurbrúar heimsækir gjarnan fyrirtæki og kynnir þau tækifæri sem geta falist í því fyrir vinnustaði að vera í samstarfi við Austurbrú um fræðslu starfsfólks. Austurbrú getur veitt fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf um símenntun starfsfólks og unnið með þeim að ýmsum menntaverkefnum, t.d. gert fræðsluáætlanir, boðið ráðgjöf um nám og starfsþróun, haft milligöngu um raunfærnimat fyrir starfsfólk og boðið stök námskeið. Starfsfólk Austurbrúar hefur mikla reynslu af skipulagningu námskeiða, hefur víðtækt tengslanet við menntastofnanir, aðra fræðsluaðila og kennara og starfar samkvæmt viðurkenndum gæðaviðmiðum.
NánarNáms- og starfsráðgjöf
Náms- og starfsráðgjöf er mikilvæg þjónusta sem Austurbrú býður uppá fyrir einstaklinga 18 ára og eldri. Samningur við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins veitir Austurbrú fjárhagslegan styrk til að sinna verkefninu og er ráðgjöfin einstaklingum að kostnaðarlausu.
NánarRaunfærnimat
Eitt af viðameiri verkefnum náms- og starfsráðgjafa hjá Austurbrú er að sinna raunfærnimati. Náms- og starfsráðgjafar sinna bæði hlutverki ráðgjafa og verkefnastjóra í raunfærnimats verkefnum Austurbrúar. Markmið með raunfærnimati er að meta eða viðurkenna óformlegt nám og þekkingu sem fólk hefur aflað sér utan hins formlega skólakerfis. Það eru tvær meginleiðir í raunfærnimati, Raunfærnimat á móti námskrám og þá einkum í framhaldsskóla og raunfærnimat á móti hæfniskröfum starfs og fer það þá fram á vinnustaðnum. Íbúum Austurlands býðst að taka raunfærnimat í heimabyggð. Á heimasíðu Austurbrúar birtist frétt þar sem m.a. var tekið viðtal við einn þátttakanda í raunfærnimati.
NánarÞróun og samstarf
Austurbrú tók þátt í nokkrum ólíkum samstarfsverkefnum á árinu 2023.
Öruggara Austurland: Svæðisbundið samráð um afbrotavarnir á Austurlandi.
Leiðsögumenn á hreindýraveiðum: Gerð námsskrár fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum.
Erasmus+: Tveir starfsmenn fóru til Danmerkur í tengslum við tungumálakennslu.
StarfA: Austurbrú og Starfsendurhæfing Austurlands (StarfA) hafa átt mikið og farsælt samstarf.
Samtök þekkingarsetra: Austurbrú er aðili að SÞS en í tengslum við ársfund samtakanna, sem haldinn var á Selfossi, var boðið til opins málþings um verkefni og hlutverk setranna.
Símennt: Austurbrú er aðili að Símennt, samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á Íslandi. Á þeim vettvangi er unnið að sameiginlegum hagsmunamálum miðstöðvanna, sem og er vettvangurinn nýttur í yfirfærslu þekkingar og þróun verkefna.
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins: Austurbrú á í góðu samstarfi við FA um þróun og framboð skilgreindra námsleiða, náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimati og rýni á innleiðingu Fagbréfa atvinnulífsins, ásamt fleiru.