Fræðslumál

Austurbrú er viðurkenndur fræðsluaðili með EQM+ gæðavottun og veitir þjónustu á sviði fullorðinsfræðslu og símenntunar á Austurlandi. Austurbrú er aðili að Símennt, samtökum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva. Starfsemin byggir einkum á framhaldsfræðslulögum nr. 27/2010. Fræðsluteymið vinnur að greiningu fræðsluþarfa, býður upp á náms- og starfsráðgjöf, raunfærnimat, eftirfylgni með fræðsluáætlunum auk þess að bjóða fram námskeið fyrir mismunandi markhópa. Í markhópi eru sem dæmi einstaklingar af erlendum uppruna, aðilar með stutta formlega skólagöngu, fatlað fólk, auk almennra og sértækra námskeiða. 

Fræðsluteymið býður einnig fram þjónustu til fyrirtækja og stofnana er varðar vinnu við fræðslugreiningar og eftirfylgni með fræðsluáætlunum. Á árinu var gert samkomulag við Síldarvinnsluna um skilgreinda þjónustu um menntun og fræðslu starfsmanna fyrirtækisins. Einnig við Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) um Fræðslustjóra að láni og eftirfylgni var með fræðsluáætlunum fyrir Launafl, Vopnafjarðarhrepp og Stoðþjónustu Fjarðabyggðar.  

Á árinu 2023 voru boðin fram um 98 námskeið og námsleiðir sem rúmlega 1200 einstaklingar sóttu.  

Austurbrú er miðstöð háskólanáms á Austurlandi. Boðið er uppá háskóla- og fjarnámsþjónustu á flestum starfsstöðvum stofnunarinnar þar sem nemendur hafa aðgang að les- og vinnuaðstöðu og aðstöðu til próftöku. Ýmis þjónusta er veitt er tengist skipulagi náms, verkefnavinnu, starfsþjálfun og lokaverkefnavinnu.  

Á árinu 2023 voru tekin alls 723 próf á starfstöðvum Austurbrúar. Af þeim voru flest prófin tekin á Reyðarfirði eða um 45% allra prófa, 30% prófa voru tekin á Egilsstöðum, 10% í Neskaupstað, 5% á Djúpavogi og á Vopnafirði, 4% á Seyðisfirði og 1% á Borgarfirði Eystri. 

Fræðsluteymið kemur auk þess að ýmsum öðrum verkefnum.  

  • Á árinu var m.a. unnin námsskrá fyrir nám leiðsögumanna með hreindýraveiðum fyrir Umhverfisstofnun og gert samkomulag um að Austurbrú sjái um framkvæmd þess á vormánuðum 2024.  
  • Unnið var að stofnun samráðsvettvangs samstarfsaðila á Austurlandi, Öruggara Austurland, til að vinna saman gegn ofbeldi og öðru afbrotum með sameiginlegum markmiðum og aðgerðum sem byggja á svæðisbundnum aðstæðum á Austurlandi. Samkomulag þess efnis var undirritað 19. september og framkvæmdaáætlun samþykkt.  
  • Þróunarverkefni um gerð íslenskuapps, Lísa – lærum íslensku, var unnið áfram með fyrirtækjunum Stokki og Miðeind, auk þess sem unnið var að aðlögun íslenskunámskeiðanna að Evrópska tungumálarammanum með Símey, Mími og Studieskolen í Danmörku.  Sótt var um stuðnings Tækniþróunarsjóðs til verkefnisins og þau samskipti rakin í kaflanum um Lísu hér neðar.  

Starfsemi fræðsluteymisins er afar fjölbreytt en í því teymi eru fjórir í fullu starfi auk starfsmanna er sinna skilgreindum verkefnum og veita almenna stoðþjónustu. Við erum áfram boðin og búið að sinna verkefnum á sviði fræðslumála fyrir íbúa, fyrirtæki og stofnanir á Austurlandi sem og að vinna að þróunarverkefnum í málaflokknum með öðrum stofnunum innanlands sem erlendis.  


Ásdís Helga Bjarnadóttir

470 3810 // [email protected]