Hátíðin hófst í lok ágúst og síðustu viðburðir fóru fram í byrjun desember (auk þess sem einn viðburður var haldinn „utan dagskrár“, í apríl 2023. Hátíðin teygði sig því yfir lengri tíma en áður, en það var mjög ánægjulegt að sjá fjölda viðburða og listamanna aukast frá fyrra ári. Viðburðirnir fóru ýmist fram í skólum, úti, í almennum rýmum, söfnum, menningarmiðstöðvum og var aldursdreifing og dreifing í alla byggðakjarna á Austurlandi góð.

Menningarmiðstöðvarnar þrjár buðu uppá fræðsluverkefni, eins og áður. Tónlistarmiðstöð Austurland bauð uppá verkefnið „Hringferðin – Tónlistarferðalag með dj flugvél og geimskip og tóku um 850 börn þátt í því. Skaftfell bauð unglingastigi uppá verkefnið „Laust mál“ en það var unnið í samhliða haustsýningu Skaftfells.  Um 100 unglingar úr sjö grunnskólum tóku þátt, ýmist í Skaftfelli eða í heimaskólum. Sláturhúsið sýndi leikverkið „Hollvættur á heiði“ fyrir fullu húsi, alls 8 sýningar.  Mikill fjöldi barna og fullorðinna sá leikverkið sem hefur hlotið mikið lof. Minjasafn Austurlands var með fjölmörg verkefni, m.a. smiðju um langspil og baðstofuna, auk tálgusmiðju og tóvinnusmiðju. Múlaþing og Fjarðabyggð buðu upp á fjölbreytt verkefni sem dreifðust vel og víða um fjórðunginn. Húlladúllan heimsótti þrjá byggðakjarna fyrir miðstig og endaði ferðina á sýningu fyrir yngstu börnin. List fyrir alla kom með verkefnið Jazz hrekkur og sýndi öllum grunnskólabörnum á Austurlandi verkið „Jazz hrekkur“ við mikinn fögnuð barna og fullorðinna. Það verkefni var í boði í kringum Hrekkjavökuna en þá eru einmitt Dagar myrkurs haldnir á Austurlandi og passaði verkið því einstaklega vel við bæjarhátíðina Austfirðinga, þetta árið. Þjóðleikhúsið kom með sýninguna „Ég get“ og var sýnt hvoru tveggja í Múlaþingi og í Fjarðabyggð.

Samstarf var við Havarí en það fólst í því að Benni Hemm Hemm og Bjössi borkó heimsóttu alla leikskóla á Austurlandi (nema einn) og kenndu börnunum að syngja þrjú lög eftir Prins Póló. Börnin og starfsfólkið ætla að æfa sig í vetur og í apríl á þessu ári verða lögin flutt samtímis í öllum leikskólunum á afmælisdegi Svavars Péturs.

Síðast en ekki komu fyrstu erlendu listamennirnir til að taka þátt í BRASinu, það var grímugerðarlistafólk frá Spáni, Neamera Teatro. Þau buðu miðstigi í fjórum „smærri“ skólum fjórðungsins uppá grímugerðarsmiðjur, auk þess sem í boði voru tvær sýningar fyrir yngri börn, þar sem pappír og endurvinnsla voru í aðalhlutverki. Ánægjulegt er til þess að hugsa að hróður BRAS hafi borist út fyrir landsteinana og að erlent listafólki sækist í að vera með á hátíðinni.

Þátttaka var almennt mjög góð og samtals sóttu um 2.300 börn og ungmenni á svæðinu einn eða fleiri viðburð. Best var hún í lokuðu viðburðunum sem fram fóru innan skólanna á skólatíma, en þannig er tryggt að öll börn fá notið og að þau geti tekið þátt.  Opnu smiðjurnar voru fjölmargar og fóru fram í stórum sem smáum byggðarkjörnum.

Samstarfið við menningarmiðstöðvarnar og List fyrir alla gerir það að verkum að viðburðirnir eru eyrnamerktir ákveðnum aldurshópi og standa öllum skólum til boða.  Langflestir skólanna á svæðinu þiggja einn eða fleiri viðburði og þannig fá öll börnin að taka þátt á skólatíma.

BRAS hefur fest sig í sessi sem mikilvægur þáttur í listar- og menningarlífi barna og ungmenna á Austurlandi. Það er því mikilvægt að verkefnið njóti áfram velvildar og stuðnings í formi fjármuna og samstarfs.

Frétt um BRAS

Verkefnisstjórn


Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

470 3871 // [email protected]