Viðfangsefnin hafa verið fjölbreytt en byggja öll á þeim áherslum sem íbúar lögðu fram á samfélagsþingum í aðdraganda verkefnisins og í upphafi árs 2020.
- Stofnaður var séreignasjóðurinn Samfélagssjóður Fljótsdals, með staðfestingu sýslumanns og stofnskránni fylgt eftir með gerð úthlutunarreglna sjóðsins og starfsreglur stjórnar. Alls lagði Fljótsdalshreppur 70 milljónir króna í sjóðinn sem áætlað er að úthluta úr, a.m.k. næstu sex ár, eða til ársloka 2026. Markmið og tilgangur sjóðsins er að styrkja fjárhagslega verkefni á sviði atvinnu, nýsköpunar, umhverfis, velferðar og menningar sem stuðla að jákvæðri samfélagsþróun og/eða eflingu atvinnulífs í Fljótsdal.
22 verkefni fengu úthlutað
Auglýst var eftir umsóknum og bárust 34 umsóknir. Heildarkostnaður verkefna var 107.088.900 kr. og sótt um alls 43.463.050 kr. Stjórn sjóðsins samþykkti að veita styrki til alls 22 verkefna að upphæð 12.884.000 kr. Úthlutun styrkja fór fram 10. júní 2020 við hátíðlega athöfn í Snæfellsstofu. Sjá upplýsingar um Samfélagssjóðinn og úthlutun á fljotsdalur.is
- Staðarvalsúttekt fyrir byggðakjarna. Mikil þörf er fyrir íbúðarhúsnæði í Fljótsdalshreppi. Samþykkt var að semja við fyrirtækið TGJ hönnun, rannsóknir og ráðgjöf til að gera staðarvalsúttekt fyrir byggðakjarna innan sveitarfélagsins þar sem áhersla yrði lögð á eftirsóknarverðan, einstakan og vistvænan byggðakjarna sem falli vel að landslagi, sé öruggur frá náttúrunnar hendi, aðgengilegur og henti vaxandi starfsemi í dalnum. Gerð var úttekt og niðurstöður kynntar íbúum í nokkrum skrefum, fyrst tíu staðir, þá þrír og að lokum varð einn fyrir valinu. Unnið er að gerð samnings við landeiganda.
- Atvinnuráðgjöf, leiðsögn og fræðsla. Veitt er fjölbreytileg ráðgjöf, s.s. við gerð umsókna, við mótun hugmynda og rýnt í leiðir til stuðnings rekstrar. Einnig er leiðbeint um menntun og styttri námskeið og staðið fyrir mismunandi fræðsluerindum.
Verkefnaáherslur hafa fyrst og fremst tengst fræðslumálum, nýsköpun í sauðfjárrækt og nýtingu skógarafurða. Þá ræktun nytjategunda og merkingu gönguleiða. Auk þess hefur verið unnið að fjölmörgum verkefnum á vegum sveitarfélagsins út frá áherslum íbúanna með stuðningi verkefnastjóra.
- Örnefnanámskeið. Farið var af stað með örnefnaskráningu sem um tuttugu aðilar sýndu áhuga á. Komið var á formlegu samstarfi við Landmælingar Íslands um það verkefni.
- Viðburðir. Skipulagðar voru tíu sumargöngur í samstarfi við íbúa, Dagur umhverfisins og plokk auk nokkurra viðburða í Végarði þegar samkomureglur leyfðu vegna Covid-19, s.s. um hamprækt, Sláturfélag Austurlands og Austurlamb, Samtök smáframleiðenda matvæla og nýsköpun í landbúnaði.