Jóna Árný Þórðardóttir

framkvæmdastjóri


Jóna Árný Þórðardóttir

Það er tæplega ofsagt að árið 2020 hafi einkennst af miklum sviptingum og Austurbrú, líkt og samfélagið allt, þurfti að bregðast hratt við áskorunum sem hún hefur aldrei áður staðið frammi fyrir. Hvern hefði órað fyrir að svona gæti gerst – að heimsfaraldur gæti ógnað lífi allrar heimsbyggðarinnar?

En það var með nokkrum ólíkindum hvað samfélagið var fljótt að tileinka sér nýjustu samskiptatækni í þessu fordæmalausa ástandi. Mikil og góð samstaða, skilningur, þolinmæði og lausnamiðuð hugsun á öllum sviðum, hjá stjórn, starfsmönnum, viðskiptavinum og öðrum hagaðilum, auk góðs samstarfs, var lykillinn að því hversu vel tókst til og starfsemi Austurbrúar komst klakklaust í gegnum þetta erfiða tímabil. Árið 2020 og sú reynsla sem þá varð til staðfestir mikilvægi samstarfs sem verður æ auðveldara með tilkomu almennrar þekkingar á rafrænum lausnum.

Aurskriðurnar á Seyðisfirði

Efnahagslífið og samfélagið á Austurlandi hefur í gegnum tíðina staðið af sér ýmis áföll og heimsfaraldurinn er einungis eitt af þeim. Í desember féllu aurskriður á Seyðisfirði sem ollu miklu tjóni en eins ótrúlegt og það kann að virðast fórst enginn. Þó svo ekki sé búið að vinna úr öllum þáttum þeirra hamfara var magnað að fylgjast með því hvernig samfélagið á Austurlandi vann saman að því að bjóða 10% af íbúum landshlutans, frá Seyðisfirði og Eskifirði, gistingu þannig að enginn þurfti að gista í fjöldahjálparstöð. Rekstraraðilar í ferðaþjónustu opnuðu hótelin sín, fjölmargir buðu fram bústaði og auka herbergi, ásamt því að íbúar sinntu ýmis konar sjálfboðastarfi til að hlúa að samborgurum sínum. Við búum yfir innri styrk og æðruleysi sem samfélag og þegar á reynir standa íbúar á Austurlandi saman.

Krafturinn víða

Efnahagslífið í landshlutanum okkar er fjölbreytt og krafturinn í því liggur víða. Á síðustu árum höfum við sé fjárfestingar, t.d. í sjávarútvegi og fiskeldi og það er engin vafi í mínum huga að ferðaþjónustan á eftir að rétta úr kútnum nú þegar ferðamenn fara að streyma til landsins að nýju. Mikilvægt er að stjórnvöld vinni að markaðssetningu landsins á þann hátt að það styðji við svæðin þar sem árstíðasveiflan er mest, eins og á Austurlandi.

Efling innviða

Sóknarfærin fyrir atvinnulíf á Austurlandi eru mörg og á þeim grunni getum við byggt upp annars konar tækifæri, t.d. í þekkingargreinum. Til að svo megi verða þurfa innviðirnir, s.s. húsnæðisframboð, að vera í stakk búnir að taka á móti nýju fólki með nýja þekkingu í farteskinu. Við þurfum sífellt að þróa ný úrræði fyrir fólk á Austurlandi svo það geti þroskað þekkingu sína og það verður gríðarlega spennandi að fylgjast með uppbyggingu háskólaútibús á Austurlandi á næstu misserum.

Þróun samfélagsins á Austurlandi er háð því að við vinnum saman og virkjum samstöðumáttinn sem í okkur býr, eins og dæmin sýna. Þannig getum við í sameiningu skapað nútímalegt samfélag sem mun standa vel í fæturna næst þegar gefur á bátinn.