verkefnastjóri hjá Austurbrú


Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir

Brú bernsku minnar liggur yfir Einarsstaðaá innri, í einu af fallegu þorpunum á Austurlandi. Brúin lætur ekki mikið yfir sér en áin sem undir hana liðast, söng mig í svefn á hverju kvöldi þegar ég var barn og unglingur. Þegar ég var yngri var ég ekki að velta fyrir mér hlutverki hennar eða af hverju hún væri yfir höfuð þar sem hún er. Fyrir mér var þessi steypta plata einungis trygging fyrir því að ég kæmist á milli hverfa í þorpinu mínu án þess að blotna í fæturna. Ég gat skottast úr Heiðmörkinni, niður í Túngötu, inn á Skólabraut eða upp á Vengi til ömmu og afa. Í dag þykir mér ofurvænt um þessa brú því ég á af henni svo margar minningar og hún er eitt af mörgum táknum hamingjusamrar bernsku minnar.

Brýr hafa einmitt þetta hlutverk – að tengja. Brúin Bifröst tengdi saman menn og guði og vinnustaðurinn minn, Austurbrú, tengir saman fólk, hugmyndir og staði. Austurbrú er nýja brúin mín og þegar ég hóf störf hjá stofnuninni fyrir tveimur árum komst ég að því að innan hennar starfar alls konar fólk, með ólíka menntun, reynslu, bakgrunn og skapferli en allir leggja sig fram við að hlúa að hagsmunum fjórðungsins. Við erum með starfsstöðvar á sjö mismunandi þéttbýlisstöðum og vegalengdir milli þeirra eru miklar. Fyrir alheimsfaraldur eyddum við miklum tíma í að keyra á fundi, til að sinna verkefnunum okkar, en á einni nóttu þurftum við að skipta um samskiptamáta. Það stórkostlega gerðist, að í stað þess að fjarlægjast hvert annað færðumst við nær, vegna þess að við notuðum tæknina til að byggja nýjar brýr. Nýja tæknibrúin hefur m.a. gert það að verkum að yngra fólk sækir í að vinna hjá Austurbrú og kemur inn með ferskan blæ, sem er góð viðbót við reynslu þeirra sem eldri eru.

Austurbrú er brúin okkar allra og það er mikilvægt að muna að grasið er grænt báðum megin, ef við veljum að líta á það þannig. Það er hlutverk okkar íbúanna að nýta þessa brú til góðs og það gerum við með því að veita athygli því sem sameinar okkur og gerir okkur sérstök. Það er ekki bara náttúran, heldur líka hefðirnar, byggðarlögin, sjórinn, fjöllin og síðast en ekki síst fólkið sem byggir okkar yndislega Austurland.