Þær lengri námsleiðir sem reglulega er boðið upp á hjá Austurbrú eru meðal annars Menntastoðir og Skrifstofuskólinn. Þessar námsleiðir hafa báðar verið kenndar með ákveðnu fyrirkomulagi sem er blanda af fjarnámi og staðnámi. Fyrirkomulagið hefur mælst vel fyrir og brottfall er undantekning. Austurbrú hefur á að skipa starfsfólki sem hefur langa reynslu úr menntakerfinu, m.a. úr framhaldsskólakerfinu, sem á Austurlandi hefur fyrir löngu tekið fjarkennslu upp sem sjálfsagðan hluta af starfsemi sinni.
Skrifstofuskólinn
Í júní 2020 var útskrifaður úr Skrifstofuskólanum hópur sem hóf nám haustið 2019. Námsleiðin er 360 klukkustundir og tilgangur námsins er að efla þekkingu og hæfni þeirra sem sinna almennum skrifstofustörfum, með áherslu á tölvur, bókhald og skrifstofutækni. Námið má meta til átján eininga á framhaldsskólastigi.
Menntastoðir
Haustið 2020 hófst nám í námsleiðinni Menntastoðir samkvæmt nýrri námskrá og tók verkefnastjóri frá Austurbrú þátt í þeirri endurskoðun vorið 2020. Menntastoðir eru 1200 klukkustunda námsleið á öðru hæfniþrepi sem meta má til allt að 60 framhaldsskólaeininga. Hún dugir ein og sér til þess að veita aðgang að frumgreinadeildum háskólanna. Einnig inniheldur námsleiðin allar bóklegar kjarnagreinar í flestum iðngreinum. Námið fer fram í staðlotum, stuðningstímum og fjarkennslu. Í vikulegum stuðningstímum geta nemendur komið og hitt kennara sinn, hringt í gegnum Skype eða FaceTime eða einfaldlega mætt og unnið að verkefnum sínum í hópi samnemenda.
Stóriðjuskólinn
Eitt af stærri verkefnum Austurbrúar er Stóriðjuskólinn sem rekinn er í samstarfi við Alcoa-Fjarðaál. Námið er samkvæmt námskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og ber nafnið Nám í stóriðju. Það skiptist í sex annir, annars vegar þrjár annir í grunnnámi og hins vegar þrjár annir í framhaldsnámi. Kennsla fer fram einu sinni í viku, frá átta til fjögur og eru kenndir um fimmtán dagar á önn í grunnnámi en nítján dagar í framhaldsnámi. Á árinu 2020 voru nemendur í framhaldsnámi rúmlega tuttugu. Sá hópur átti að útskrifast vorið 2020 en vegna Covid-19 frestaðist útskriftin þeirra um eitt ár.
Beint frá býli
Matarsmiðjan Beint frá býli var kennd í samstarfi við Hallormsstaðarskóla og fyrirkomulagið unnið út frá námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Námsleiðin er samtals 160 klukkustundir þar sem helmingur var heimavinna. Haustönnin var kennd frá miðjum október til loka nóvember og var að mestu bókleg þar sem stuðst var við vefumhverfi TEAMS til að kenna nemendum sem komu víða að úr fjórðungnum: frá Djúpavogi og Berufirði, Stöðvarfirði, Héraði, Seyðisfirði og Borgarfirði eystri. Kennslan var í höndum Sigurðar Eyberg Jóhannessonar, fagstjóra sjálfbærnináms skólans og honum til aðstoðar var Bryndís Fiona Ford, skólameistari Hallormsstaðaskóla. Auk þess voru tveir gestafyrirlesarar. Alls hófu fjórtán nemendur námið og þrettán kláruðu fyrri hlutann.
Grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk
Um haustið 2020 hófst einnar annar grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk á Djúpavogi. Það voru sautján þátttakendur, starfsmenn hjá Búlandstindi, og luku allir náminu. Þátttakendurnir voru frá Filippseyjum, Póllandi, Portúgal, Hondúras og Íslandi en vegna heimsfaraldursins voru flestir námsþættirnir kenndir í streymi.
Tölvufærni
Á vorönn var kenndur tölvufærnihluti námsleiðarinnar Sterkari starfsmaður á Reyðarfirði. Kennd voru grundvallaratriði í notkun tölva. Hófu þrettán nemendur námið en sex kláruðu.