Óhætt er að segja að mikill árangur hefur náðst í verkefnum Betri Borgarfjarðar á árinu 2020 þrátt fyrir að herjað hafi heimsfaraldur Covid-19 með tilheyrandi samkomutakmörkunum og lokunum víða.

Helstu verkefni ársins voru sem fyrr tengd húsnæðismálum og samgöngum en einna hæst bar á árinu að Borgarfjarðarhreppur (nú Múlaþing) hóf byggingu fjögurra leiguíbúða í tveimur parhúsum og munu nýir íbúar flytja inn á vordögum 2021. Vegagerð á Vatnsskarði lauk haustið 2020 og er því nú einungis eftir óklæddur 15 km vegkafli á Borgarfjarðarvegi frá bænum Laufási að Eiðum á Fljótsdalshéraði. Verkið er í forhönnun og fer í útboð á vordögum 2021. Framkvæmdir eiga að hefjast 2021 og ljúka 2022. Verkefnið var upphaflega á framkvæmdaáætlun Samgönguáætlunar fyrir árin 2024-2026 en var flýtt vegna Covid-19. Lokið var við að leggja ljósleiðara í Njarðvík á árinu og samhliða komst á farsímasamband í Njarðvíkurskriðum, Njarðvík og á Vatnsskarði sem er Borgfirðingum mikið öryggismál.

Verkefnisstjórn fundaði fimm sinnum á árinu og árlegur íbúafundur var haldinn í lok júní 2020 þar sem verkefnisstjóri fór yfir stöðu verkefnisins og íbúar rýndu í og endurskoðuðu verkefnismarkmið Betri Borgarfjarðar. Við sama tækifæri var rúmlega 14 milljónum króna úthlutað í styrki til atvinnuuppbyggingar og samfélagseflandi verkefna á Borgarfirði. Úthlutunarupphæðin var töluvert hærri þetta árið en hin fyrri en aukið framlag hlaust vegna mótvægisaðgerða yfirvalda við Covid-19 faraldrinum. Samtals hefur því  rúmlega 28 milljónum verið úthlutað í styrki frá því verkefnið hófst 2018 til fjölbreyttra verkefna á sviði menningar, iðnaðar, nýsköpunar og ferðaþjónustu.

Austurbrú hélt tvö íslenskunámskeið fyrir erlenda íbúa á Borgarfirði eystri á árinu, í maí – júní 2020 og september – janúar 2021. Næsta námskeið er fyrirhugað í apríl 2021. Að jafnaði hafa um tíu nemendur sótt námskeiðin.

Atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytið í samvinnu við Orkusetur veitti sumarið 2020 styrki til bættrar einangrunar húsa í þátttökubyggðalögum Brothættra byggða. Hægt var að sækja um styrki til glerskipta, einangrunar þakplötu, klæðningar húsa og kaupa á orkusparandi hitastýringartækjum. Hámarksstyrkur var að upphæð 500.000 kr. og miðaðist við 50% af efniskostnaði. Fimmtán verkefni hlutu styrk á Borgarfirði eystri.

Verkefnisstjórn