Þjónusta við háskólanemendur var með svipuðu sniði og verið hefur undanfarin ár og nýttist mörgum nemendum.

Námsaðstaða

Nokkrir tugir nemenda hafa að staðaldri námaðstöðu á starfsstöðvum Austurbrúar þar sem þeir læra, hlusta saman á fyrirlestra, leysa verkefni og undirbúa sig fyrir próf og verkefnaskil. Háskólanemendur á Austurlandi geta fengið lærdómsaðstöðu á fimm starfsstöðvum Austurbrúar, í Neskaupstað, á Reyðarfirði, á Egilsstöðum, á Vopnafirði og á Djúpavogi. Það getur verið gott fyrir nemendur sem stunda námið sitt í fjarnámi að hafa lærdómsaðstöðu fyrir utan heimilið. Fjöldi þeirra sem nýta aðstöðu hjá Austurbrú hefur annars verið svipaður ár frá ári, um nokkurt skeið enda hefur framboð á námsgreinum í fjarnámi frá íslenskum háskólum að mestu staðið í stað. Nemendur sem nýta þjónustu Austurbrúar eru úr öllum háskólum landsins nema Listaháskóla Íslands og stundum eru nemendur frá erlendum skólum.

Próftaka

Prófaumsýsla hefur verið umfangsmikil í starfi Austurbrúar undanfarin ár því próftökum þarf að sinna eftir formlegu verklagi um meðhöndlun prófa, skönnun og sendingu prófúrlausna, meðferð persónugreinanlegra gagna og fleira. Próftökur á prófstað voru mun færri en á hefðbundnu ári vegna sóttvarnareglna sem takmörkuðu möguleika til að stefna nemendum saman til próftöku.

Tölulegar upplýsingar um próf árið 2021

Á vorönn voru 149 próftakar hjá Austurbrú, 262 próf á 7 prófstöðum á Austurlandi. Alls tóku 108 konur og 41 karl próf. Flestir próftakanna stunda nám við Háskólann á Akureyri (68 talsins) en næstflestir (31 talsins) við Háskóla Íslands.

Á haustönn voru próftakarnir 102 talsins og prófin 221 á 7 prófstöðum. Af þeim sem tóku próf voru 70 konur og 32 karlar. Flestir próftakanna stunda nám við Háskólann á Akureyri (31 talsins) en næstflestir (27 talsins) við Háskóla Íslands.

Önnur þjónusta

Margir fá leiðbeiningar og aðstoð varðandi nám, s.s. námstækni, skipulag verkefna og ráðgjöf vegna prófkvíða.

 

 

Verkefnisstjórn


Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir

470 3827 // [email protected]