Stjórnvöld, Múlaþing og Austurbrú standa að þriggja ára verkefni um uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði í kjölfar aurskriðanna í desember 2020 en atvinnulíf hefur staðið frammi fyrir fjölþættum áskorunum í kjölfarið. Með verkefninu er veitt alls 215 milljónum kr. til ráðgjafar, greiningar og verkefna sem miða endurreisn atvinnulífs og nýsköpun. Fimm manna verkefnisstjórn er yfir verkefninu; tveir fulltrúar Múlaþings, tveir fulltrúar heimastjórnar Seyðisfjarðar og einn frá Austurbrú.
Stofnaður var Hvatasjóður sem veitti 55 milljónir til verkefna sem miða að því virkja frumkvæði íbúa og koma til móts við þá atvinnurekendur og einstaklinga í atvinnurekstri sem orðið hafa fyrir tjóni. Alls voru styrkt 21 verkefni í þessari fyrstu úthlutun. Hæsta styrkinn hlaut Sævar Jónsson til að endurbyggja sandblástursklefa en af öðrum verkefnum sem hlutu stuðning má nefna Austminjar til að vinna að varðveislu gamalla húsa og Austurlands Food Coop til að endurbyggja og klára geymslu- og pökkunarrými fyrir grænmeti, samfélagsbakaríið Herðubrauð, trésmíðaverkstæði, prentverkstæði og málmsmíði. Gert er ráð fyrir þremur úthlutunum úr sjóðnum, snemmárs 2022 og svo 2023.
Af öðrum þáttum má nefna ráðgjöf sem hefur verið veitt til að taka á bráðum rekstrarvanda og að skjóta stoðum undir framtíðarrekstur, vinnu við að leiða tjónamál til lykta, fræðsluefni um skriðuna og afleiðingar hennar og fræðslu- og virkniúrræði.