Á árinu fólst að venju mikil vinna í umsóknarferlinu, frágang gagna til fagráða og úthlutunarnefndar, samningagerð og frágangi að lokinni úthlutun styrkja, auk yfirlesturs og mats framvindu- og lokaskýrslna allra verkefna sem hlutu styrki. Verkferlar eru í nokkuð föstum skorðum en þó alltaf endurskoðaðir út frá athugasendum fagráða og úthlutunarnefndar. Auglýst var eftir umsóknum vegna verkefna sem fara áttu fram árið 2021 og var úthlutun í desember 2020 á Zoom. Eins og undanfarin ár var útbúinn bæklingur með lýsingu á verkefnunum sem hlutu styrk auk ávarps formanns úthlutunarnefndar.
Verkefnin voru fjölbreytt eins og áður en í úthlutunarreglum Uppbyggingarsjóðs Austurlands er sérstaklega kallað eftir verkefnum sem falla að áherslum nýrrar Sóknaráætlunar Austurlands, sem gildir frá 2020 til 2024, og snúa að málum á sviði menningar og atvinnuþróunar auk tengingar við umhverfismál. Áherslurnar felast í stuðningi við menningarverkefni sem styrkja atvinnustarfsemi á sviði lista og menningar, verkefni sem styðja við menningarstarf barna og ungmenna og verkefni sem draga fram og efla áhugaverða þætti í menningararfleifð.
Áherslur Sóknaráætlunar Austurlands snúa einnig að því að styðja við og efla nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi, verkefni sem fela í sér skref að aukinni sjálfbærni og fullvinnslu á Austurlandi þá sérstaklega úr skógarafurðum og á sviði matvælaframleiðslu sem og verkefni sem ríma við hugmyndafræði Áfangastaðarins Austurlands.
Styrkþegar voru bæði aðilar sem áður hafa fengið styrki og nýir. Hæsta styrkinn hlaut Hallormsstaðaskóli fyrir tilraunaeldhús í skólanum sem er opið fyrir alla sem vilja vera í framleiðslu. Auk Hallormsstaðaskóla, fékk Sauðagull ehf. og Beljandi brugghús þrjár milljónir hvort. Sauðagull ætlar að þróa sauðamjólkurís en Beljandi að setja upp rými þar sem hægt verður að geyma bjór á eikartunnum.
Listahátíðin List í ljósi á Seyðisfirði fær einnig þrjár milljónir. Þá fær Þór Vigfússon 2,8 milljónir til að opna safn fyrir alþjóðlega samtíma- og nútímalist á Djúpavogi.
Alls bárust 118 umsóknir sem er svipað og verið hefur en að jafnaði berast árlega 110-130 umsóknir til sjóðsins. Áætlaður heildarkostnaður verkefna var um 540 m.kr. en sótt var um styrki fyrir 186 m.kr, þar af 96 m.kr. til menningarmála og 91 m.kr. til nýsköpunar og atvinnuþróunar.
Til úthlutunar að þessu sinni voru 57.800.000 kr. og skiptist fjármagnið þannig að 27 verkefni á sviði menningar hlutu styrki sem námu 27 milljónum og 20 styrkir til atvinnuþróunar upp á alls 24,8 milljónir. Að auki voru veittar 6 milljónir til stofn- og rekstarstyrkja á sviði menningar.
Vegna heimsfaraldurs sem skall á stuttu eftir að úthlutað var úr sjóðnum hafa fjölmörg verkefni frestast eða breytt um framkvæmdaform en aðeins var þó hætt alfarið við eitt verkefni sem telja má að sýni töluverða þrautseigju styrkþega á ófyrirsjáanlegum tímum.