BRAS menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi var haldin í fimmta sinn haustið 2022. Þema hátíðarinnar þetta árið var sjálfsmynd unga fólksins, nafn hennar var „Ég um mig frá mér til þín“ og einkunnarorðin þau sömu og áður: Þora! Vera! Gera!
Sérstök áhersla var lögð á viðburði sem höfðuðu til ungmenna og meginþemað var hugsað sem hvatning til unga fólksins okkar að taka þátt í opnum viðburðum, eftir tvö ár í heimsfaraldri, þar sem þau þurftu að vera mikið inni og jafnvel ein.
Markmið BRAS eru að tryggja aðgengi og þátttöku barna og ungmenna á Austurlandi að list- og menningarviðburðum í heimabyggð og er það gert með samstarfi og samvinnu fjölmargra aðila. Þar gegna menningarmiðstöðvarnar þrjár, skólarnir og sveitarfélögin lykilhlutverki auk þess sem ýmsar stofnanir á svæðinu leggja lóð á vogarskálarnar. Einnig er gott samstarf við opinberar stofnanir, eins og t.d. Þjóðleikhús, Íslenska dansflokkinn o.fl. Í ár voru forráðamenn sérstaklega hvattir til að fara með börnin sín í aðra byggðakjarna og taka þátt í vinnusmiðjum og/eða sýningum þar. Þá var einnig sérstök áhersla lögð á að fá austfirskt listafólk til að bjóða upp á viðburði fyrir börn og ungmenni í sem flestum byggðarkjörnum.
Í boði voru brúðusmiðjur, klippimyndasmiðjur, náttúrusmiðjur, bókasmiðjur og ýmislegt fleira. Þessu til viðbótar stóð öllum grunnskólum á Austurlandi til boða að fá verkefnið „Menningarmót /Fljúgandi teppi“ í heimsókn og þáðu allir grunnskólar í Múlaþingi það boð, alls sex skólar. Kristín Vilhjálmsdóttir, sem hlotið hefur alþjóðlegar viðurkenningar fyrir verkefnið, dvaldi á Austurlandi í tæpar tvær vikur, kom verkefninu af stað í skólunum og fylgdi því síðan eftir.
Menningarmiðstöðvarnar þrjár; Skaftfell, Menningarstofa Fjarðabyggðar/Tónlistarmiðstöð Austurlands og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs/Sláturhús buðu upp á þrjú ólík fræðsluverkefni inn í alla grunnskólana og var þátttakan að mestu leyti góð. List fyrir alla bauð upp á sýninguna „Ein stór fjölskylda“ með Gunna og Felix og fór sú sýning inn í alla grunnskólana á Austurlandi. Íslenski dansflokkurinn kom með dansverkið og hreyfilistanámskeiðið Dagdrauma fyrir yngri börn auk danssmiðju fyrir eldri. Þjóðleikhúsið sýndi Góðan daginn Faggi hvoru tveggja í Múlaþingi og Fjarðabyggð.
Minjasafn Austurlands bauð upp á vinnustofu sem tengist þjóðsögunni um Álfkonudúkinn og samstarf var við fjölmarga grunnskóla, auk þess sem safnið bauð ungu fólki af listnámsbraut Menntaskólans á Egilsstöðum í leiðsögn með frönskum listamanni um sýninguna hans. Þessu til viðbótar tók Hringleikur þátt í BRASinu með sýningum og sirkussmiðjum víða á svæðinu.
Fjallað var um viðburði á samfélagsmiðlum og víðar. Könnun var lögð fyrir þátttakendur og mæltist hátíðin vel fyrir. Nú þegar er hafinn undirbúningur við sjöttu hátíðina sem fram fer haustið 2023.