Áfangastaðaáætlun Vopnafjarðar
Lokið var við áfangastaðaáætlun Vopnafjarðar á árinu en hún var m.a. byggð á íbúakönnunum og viðtölum við ferðaþjónustuaðila ofl. Áfangastaðaáætlunin byggir á ítarlegri greiningu og áföngum sem lagðir eru til við til að styrkja móttöku ferðamanna á svæðinu; einkum grunninnviði en einnig gistingu, mat og afþreyingu. Áætlunin var kynnt sveitarstjórn sem hefur þegar byrjað að nýta efni hennar til stefnumótunar og stefnt er að frekara samtali um áherslur á fyrrihluta árs 2023.
Þekkingarsetur í Kaupvangi
Austurbrú sér um verkefni er varðar fræða- og þekkingarsetur í Kaupvangi á Vopnafirði. Markmið verkefnisins er að vinna að eflingu mennta-, menningar-, fræða- og atvinnulífs á Vopnafirði með þeirri sérfræðiþekkingu sem til er innan Austurbrúar. Starfsstöð Austurbrúar á Vopnafirði er í menningarhúsinu Kaupvangi en þar er boðið upp á námsaðstöðu við fjarnema á háskólastigi og aðstoð við próftöku. Af öðrum verkefnum ber helst að nefna gerð áfangastaðaáætlunar fyrir Vopnafjörð sem var kynnt á árinu og vonir standa til að nýtist stjórnvöldum og ferðaþjónustu á svæðinu. Auk þess er verkefnastjóri Austurbrúar á Vopnafirði tengiliður við sveitarfélagið, einstaklinga og fyrirtæki í ýmsum verkefnum á sviði menningar- og atvinnuþróunar, t.d. í tengslum við umsóknir í sjóði.