Starfsfólk Austurbrúar heimsækir gjarnan fyrirtæki og kynnir þau tækfæri sem geta falist í því fyrir vinnustaði að vera í samstarfi við Austurbrú um fræðslu starfsfólks. Austurbrú getur veitt fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf um símenntun starfsfólks og unnið með þeim að ýmsum menntaverkefnum, t.d. gert fræðsluáætlanir, boðið ráðgjöf um nám og starfsþróun og haft milligöngu um raunfærnimat fyrir starfsfólk. Við gerð fræðsluáætlana er notast við verkfærið „Fræðslustjóri að láni“ sem unnið er í samstarfi við starfsmenntasjóði og kostað af þeim að mestu. Þá eru fræðsluþarfir eru greindar út frá sjónarhóli starfsfólks og stjórnenda og fræðsluáætlun byggð á greiningunni. Fyrirtækið getur síðan framfylgt áætluninni sjálft eða falið Austurbrú það. Austurbrú tekur sér undirbúning, framkvæmd og aðra umsýslu við námskeið sem vinnustaðir vilja bjóða starfsfólki sínu, óháð því hvort Austubrú kemur að greiningu fræðsluþarfa á vinnustaðnum. Starfsfólk Austurbrúar hefur mikla reynslu af skipulagningu námskeiða, hefur víðtækt tengslanet við menntastofnanir, aðra fræðsluaðila og kennara og starfar samkvæmt viðurkenndum gæðaviðmiðum. Starfsfólkið heimsækir gjarnan fyrirtæki og kynnir þau tækfæri sem felsta í samstarfi við Austurbrú um fræðslu starfsfólks.
Austurbrú heldur utan um skipulag og framkvæmd á fræðsluáætlunum fyrir nokkur fyrirtæki og stofnanir sem þegar hafa farið í gegnum ferlið „Fræðslustjóri að láni“. Árið 2022 sá Austurbrú um skipulag fræðsluáætlunar fyrir Loðnuvinnsluna, Síldarvinnsluna, starfsfólk Vopnafjarðarhrepps og starfsfólk íþróttamannvirkja í Fjarðabyggð og Múlaþingi. Einnig samdi stoðaþjónusta Fjarðabyggðar við Austurbrú um að halda utan um fræðsluáætlun sem sveitarfélagið hefur gert fyrir starfsfólk sitt.
Í lok árs hófst vinna við þarfagreiningu og gerð fræðsluáætlunar fyrir Launafl. Samningur var gerður um að Launafl fengi „Fræðslustjóri að láni“ hjá Austurbrú. Myndaður var stýrihópur í fyrirtækinu til að vinna að verkefninu með ráðgjöfum Austurbrúar, unnið var að hæfni- og þarfagreiningu meðal alls starfsfólks. Fullunnin fræðsluáætlun verður tilbúin í byrjun árs 2023.