Samstarf við HR og HA
Árið 2022 var samstarf milli Háskólans í Reykjavík (HR), Háskólans á Akureyri (HA) og Austurbrúar. Á vor önn stunduðu nemar við háskólagrunn HR nám sitt í húsakynnum Austurbrúar á Reyðarfirði og fengu þar stuðning við nám sitt. Í maí var tekin ákvörðun um það að nemendur gætu lagt stund á tölvunarfræði frá HR/HA og hófu þrír nemendur það nám við starfstöð Austurbrúar í Ágúst. Námið er þannig skipulagt að nemendur koma tvö eftirmiðdegi í skólann og eru þá í vinnu- eða dæmatímum en önnur kennsla er spegluð og nemendur geta því horft á fyrirlestra og annað þegar þeim hentar þar sem þeim hentar. Á sama tíma hélt háskólagrunnur HR áfram að starf líkt og áður.
Námsaðstaða og aðstoð við nemendur
Austurbrú býður háskólanemum að nýta lesaðstöðu á starfsstöðvum sínum á Egilsstöðum, Reyðarfirði, Neskaupstað, Djúpavogi og Vopnafirði. Nemendur geta fengið lykla/aðgangskort og komið að læra þegar þeim hentar bæði á daginn og utan opnunartíma skrifstofu. Allmargir nýta sér þetta einkum í aðdraganda prófa og þegar þeir þurfa að vinna saman að verkefnum. Einnig er hægt að fá þjónustu hjá náms- og starfsráðgjafa Austurbrúar. Haustið 2022 hélt Austurbrú ókeypis námskeið fyrir háskólanemendur á Austurlandi um prófkvíða, hugarfar og streitustjórnun. Námskeiðið var haldið á Zoom og var ánægja meðal þátttakanda með námskeiðið.
Próftaka
Prófaumsýsla hefur verið umfangsmikil í starfi Austurbrúar undanfarin ár því próftökum þarf að sinna eftir formlegu verklagi um meðhöndlun prófa, skönnun og sendingu prófúrlausna, meðferð persónugreinanlegra gagna og fleira. Prófstaðir Austurbrúr eru sjö. Próftakar hjá Austurbrú eru flestir háskólanemendur en árið 2022 sá Austurbrú m.a einnig um próffyrirlögn fyrir Umhverfisstofnun í veiði- og skotvopnaprófum. Þá hafa framhaldsskólanemendur tekið próf á þeim starfsstöðvum Austurbrúar þar sem ekki er framhaldsskóli. Austurbrú sér einnig um að leggja fyrir búsetuleyfispróf í íslensku fyrir útlendinga í samstarfi við Mími – símenntun. Þá fer fyrirlögn ríkisborgaraprófa á Austurlandi fer fram á hverju vori í Vonarlandi á Egilsstöðum og hefur Austurbrú séð um þau á Austurlandi í samvinnu við Mími og Menntamálastofnun.
Tölfræðiupplýsingar um próf
Austurbrú heldur utan um og skráir fjölda prófa og próftaka sem nemendur taka hjá Austurbrú. Á vorönn voru 171 próftaki sem tóku 345 próf hjá Austurbrú og á haustönn voru próftakarnir 176 talsins og prófin 367.