Samstarf við VMST og StarfA
Austurbrú hefur samráð og samstarf við aðra aðila sem þjónusta fólk varðandi nám og nám- og starfsráðgjöf, s.s. Vinnumálastofnun (VMST) og Starfsendurhæfingu Austurlands (StarfA). Samstarfið miðar að því að bjóða fram námskeið sem geta nýst atvinnuleitendum og fólki í starfsendurhæfingu. Þannig er námsleiðin Stökkpallur alltaf kennd í samstarfi StarfA og Austurbrúar og námsleiðirnar Smiðja í myndlist var kennd hjá StarfA og Uppleið fyrir hópa frá VMST, auk styttri námskeiða. Komið var á óformlegum samráðsvettvangi milli starfsmanna Austurbrúar, StarfA, VIRK og VMST með það að markmiði að greina hvort mögulegt væri að sníða námsúrræði betur að þörfum þessar hópa og nýta þau sameiginlega.
Námskeið fyrir leiðsögumenn með hreindýraveiðum
Vorið 2022 gerði Umhverfisstofnun samning við Austubrú um að Austurbrú annaðist framkvæmd endurmenntunarnámskeiðs fyrir leiðsögumenn með hreindýaveiðum. Námskeiðið var haldið í byrjun sumars á þremur stöðum á landinu; Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík. Það var í formi fyrirlestra og vinnustofu þar sem nemendahópurinn lagði til mikilvæga punkta sem nýtast við frekari þróun námskeiða fyrir leiðsögumenn með hreindýaveiðum. Viðfangsefnið var fyrst og fremst spurningin um hvað felst í starfi hreindýraleiðsögumannsins; umgengni við náttúruna, meðferð bráðar og samskiptafærni. Þátttaka í endurmenntunarnámskeiði er forsenda þess að leiðsögumennirnir geti endurnýjað starfsleyfi sitt.
Haustið 2022 hófu Umhverfisstofun og Austurbrú samstarf um að Austurbrú annist framkvæmd grunnámskeiðs fyrir nýja hreindýaleiðsögumenn sem áformað er að halda snemma árs 2023.
Náms- og kynnisferð til Svíþjóðar
Í byrjun september fóru fjórir starfsmenn Austurbrúar í náms- og kynnisferð til Svíþjóðar. Tilgangur ferðarinnar var að kynna sér náms- og starfsráðgjöf fyrir innflytjendur. Ferðin var farin með styrk frá Erasmus+. Upphaflega var ferðin á dagskránni haustið 2020 en vegna Covid þurfti að fresta henni til haustsins 2022.
Austurland hlaðvarp fjallaði um ferðina og talaði m.a. við Daniel Hailemariam en hann tók á móti hópnum í Svíþjóð.
Hlusta á hlaðvarpsþáttNámskeið í tæknilæsi fyrir 60+
Árið 2022 ákvað félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið að fara í átak varðandi kennslu í tæknilæsi fyrir 60 ára og eldri. Um var að ræða sérsniðna kennslu sem hjálpar eldra fólki um allt land að nýta sér þjónustu og rafræn samskipti á netinu með það að markmiði að draga úr félagslegri einangrun, njóta afþreyingar á netinu og auka notkun á þjónustusíðum. Á námskeiðinu var m.a. kennt á tölvupóst, samfélagsmiðla, efnisveitur og rafræn skilríki.
Austurbrú hélt níu námskeið á níu stöðum á Austurlandi. Alls voru 67 þátttakendur á námskeiðunum. Meðalaldurinn var 73,9 ár og var yngsti þátttakandinn 61 árs en sá elsti 92 ára.