Austurbrú er samstarfsaðili í tveimur stórum Evrópuverkefnum sem eru styrkt af Horizon2020 rannsóknarsjóði. Vinnan hófst með kick-off fundum í október 2022 og stendur yfir næstu tvö til fjögur ár.
Annað verkefnið heitir MEDiate og snýr að því að þróa kerfi sem styður við ákvarðanatöku fyrir áhættustjórnun sem tekur tillit til fjölþættra náttúruváratburða sem eru á einhvern hátt samhangandi. Verkefnið snýr ennfremur að miðlun upplýsinga. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands. Tilraunasvæðið á Íslandi fyrir það verkefni verður á Seyðisfirði en einnig eru svæði á Englandi, Frakklandi og á Spáni.
Hitt verkefnið kallast The HuT, The Human Tech Nexus. Megin afurð verkefnisins er að gera upplýsingagátt með vefsíðu þar sem almenningur geti leitað eftir upplýsingum. Til dæmis upplýsingar um hættur varðandi ofanflóð, fræðsluefni fyrir börn og upplýsingar um mælitæki sem eru notuð á svæðinu. Áhersla verður lögð á samfélagið á Seyðisfirði en er það fyrsta tilraunasvæðið á Íslandi. Önnur tilraunasvæði eru til dæmis á Ítalíu, Austurríki, Þýskalandi og á Spáni. Í framhaldinu eru áformuð plön um að hafa Eskifjörð og Neskaupsstað sem tilraunasvæði en þó mun vinnan byrja fyrst með íbúum Seyðisfjarðar.
Verkefnin hafa verið kynnt fyrir stjórnsýslu sem og sveitarstjórnarfulltrúum Múlaþings og fjallað um þau á vef Austurbrúar.