Verkefnið var unnið fyrir styrk úr lið A10 í byggðaáætlun Almenningssamgöngur um allt land. Austurbrú hefur greint möguleika og lausnir á almenningssamgöngum til og frá Vopnafirði fyrir styrk úr Byggðaáætlun. Verkefninu var ætlað að greina mögulegar lausnir á almenningssamgöngum, sérstaklega möguleikann á farveitum en samhliða var ákveðið að kanna ýmsa þjónustusókn Vopnfirðinga.
Þegar sótt var um styrk fyrir verkefninu lá fyrir frumvarp sem ætlað var að breyta lögum til leigubílaaksturs. Í því var lögð fyrir heildarendurskoðun á lagaumhverfi leigubifreiða sem sett voru árið 2001 og felur í sér nýja heildarlöggjöf um leigubifreiðaakstur hér á landi. Lagt er til að fjöldatakmarkanir atvinnuleyfa verða afnumdar og getur því hver sá sem uppfyllir skilyrði laga fengið útgefið leyfi. Í frumvarpinu eru lögð til tvenns konar leyfi til að stunda leigubifreiðarakstur; rekstrarleyfi, sem veitir leyfishafa rétt til að aka og reka leigubifreið og atvinnuleyfi, sem veitir leyfishafa rétt til að aka leigubifreið sem er í eigu rekstrarleyfishafa. Frumvarpið hefur enn ekki orðið að lögum en samgönguráðherra hefur gert á því ákveðnar breytingar og liggur það fyrir þinginu.
Vopnfirðingar nota almennt ekki strætisvagn til ferðalaga þar sem ferðirnar henta illa og fara þarf 50 km að stoppistöð. Flestir hafa notað flug undanfarna 12 mánuði en yfir helmingur nýtir sér flug frá Egilsstöðum eða Akureyri, frekar en flug frá Vopnafirði. Áhugi Vopnfirðinga á öðrum möguleikum almenningssamgangna, s.s. farveitum eða deilibílum, er bundinn við ákveðna hópa en konur og yngra fólk er opið fyrir því að skoða deilibíl sem möguleika. Fram kom að skoða þurfi frá grunni almenningssamgöngur til og frá Vopnafirði og mikilvægt er að það sé gert samhliða öðrum flutningi inn og út af svæðinu þannig að hægt sé að samnýta flutning á farmi og fólki. Einn möguleiki í því samhengi er flugrúta sem fer í Egilsstaði og/eða til Akureyrar. Mikilvægt er að farið verði í slíkt verkefni með þróun og þolimæði að leiðarljósi og tvö ár nefnd sem lágmarkstími til að fólk bæði venjist því að hafa aðgang að reglulegum almenningssamgöngum og hægt verði að skoða þörfin allar árstíðir.
Skoða niðurstöður