Verkefnið Úthérað: Ein sveit – okkar sveit er byggðaverkefni sem hófst árið 2022. Markmið verkefnisins var að fjalla um og ræða tækifæri og búsetugæði á svæðinu en það mynda fjórar sveitir: Eiðaþinghá, Hjaltastaðaþinghá, Hróarstunga og Jökulsárhlíð. Skipuð var verkefnisstjórn þar sem sat einn fulltrúi hverrar sveitar. Verkefnahópurinn stóð fyrir spurningakönnun og íbúaþingi sem veittu hvort tveggja mikilvæga innsýn og niðurstöður sem nú hafa verið kynntar fyrir heimastjórn. Verkefnahópurinn hefur lagt til framhald á verkefninu og væri það ákveðin nýsköpun hvað varðar íbúalýðræði og vinnulag við búsetuþróun í sveitum landsins.
Íbúaþing var haldið laugardaginn 27. ágúst 2022 í Brúarási. Íbúar settu sér dagskrá út frá þeim málefnum sem þeir vildu ræða og töldu mikilvæg fyrir framtíðarsýn svæðisins. Málefnin voru fjölbreytt, almenningssamgöngur, orkumál, atvinnutækifæri og skipulagsmál. Unnið var í stuttum umræðulotum og niðurstöðurnar teknar saman í lok þingsins. Verkefnishópur Úthéraðs tók saman niðurstöðurnar og vann úr þeim tillögur að áframhaldandi verkefni en megin niðurstöður þeirra eru að fjölga þurfi íbúum á svæðinu, að auka þurfi framboð á húsnæði/jörðum til heilsársbúsetu og að bæta þurfi innviðaþjónustu. Til að ná þeim niðurstöðum leggur hópurinn til að stofnað verði til 5 ára verkefnis sem stýrt sé af félagi sem stofnað verði um vinnuna og þar eigi hver sveit fulltrúa. Félagið njóti styrkja frá sveitafélaginu og aðstoðar hjá Austurbrú til að sækja styrki víðar. Stofnaður verði hvatasjóður sem úthlutar árlega til frumkvæðisverkefna á Úthéraði og haldinn verði árlegur íbúafundur til að framfylgja verkefninu með stuðningi allra íbúa svæðisins.
Nánar um verkefnið