Áfangastaðaáætlun Austurlands
Grunnurinn að verkefninu liggur í áfangastaðaáætlun landshlutans og aðgerðaáætlun hennar, sem voru uppfærðar á árinu 2023 og gilda út 2025. Áfangastaðaáætlun er sameiginleg stefnuyfirlýsing sem hefur það að markmiði að stýra uppbyggingu og þróun svæðis yfir ákveðinn tíma, skilgreina hlutverk hagsmunaaðila, tiltaka beinar aðgerðir sem hver og einn hagsmunaaðili ber ábyrgð á og hvaða bjargir og auðlindir þeir hyggjast nýta við þá vinnu. Um er að ræða heildstætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi svæði eða áfangastað, þ.m.t. þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis.
Unnið er markvisst með upplifun innlendra og erlendra gesta, jafnt og íbúa. Haldnir eru reglulegir fundir með samstarfsaðilum og markaðsráði sveitarfélaganna til þess að gæta samlegðar og slagkrafts í verkefnum. Á árinu var unnið sérstaklega að eflingu afþreyingar og afþreyingarfyrirtækja í landshlutanum, verkefnum tengdum Matarauð Austurlands og Matarmóti og sýnileika landshlutans á erlendum og innlendum mörkuðum.
Samstarf MAS
Austurbrú er þátttakandi í verkefninu Markaðsstofur landshlutanna (MAS). Hlutverk markaðsstofanna er að samræma kynningar- og markaðsmál í ferðaþjónustu, sjá um útgáfumál, móttöku blaðamanna ásamt beinni markaðssetningu og vinnu við þróun í ferðaþjónustu. Markaðsstofurnar hittast alla jafna tvisvar sinnum á ári á vinnustofum. Fyrri vinnustofa ársins var haldin dagana 18.-19. apríl í Grósku og Húsi Atvinnulífsins í Reykjavík. Starfsmenn markaðsstofanna fengu kynningu á verkefnum Ferðamálastofu frá Elíasi og Arnari Má, nýjum ferðamálastjóra og sátu vinnustofu hjá Íslandsstofu. Þar var farið yfir kjarnastarfsemi Íslandsstofu og hvernig megi vinna verkefni betur í samstarfi við Markaðsstofurnar.
Undanfarin ár hafa báðar vinnustofur farið fram í Reykjavík. Sú breyting var gerð í ár að færa vinnustofurnar frá Reykjavík og út á landsbyggðina. Fyrsta vinnustofan utan Reykjavíkur var haldin á Akureyri og Mývatni dagana 21. og 22. nóvember. Vinnustofan var tileinkuð vetrarferðaþjónustu og beinum áætlunarflugum til Akureyrar. Starfsmenn markaðsstofanna fengu kynningar frá nokkrum norðlenskum fyrirtækjum með áherslu á uppbyggingu vetrarferðaþjónustu í þeirra rekstri.
Stærsta samstarfsverkefni Markaðsstofa landshlutanna er hin árlega ferðasýning Mannamót sem alla jafna fer fram um miðjan janúar. Markaðsstofurnar halda utan um ferðasýninguna og eru samstarfsaðilum sínum til halds og trausts á meðan henni stendur. Mannamót fóru fram um miðjan janúar og var mæting með besta móti, hátt í þúsund gestir sóttu viðburðinn og þá voru 21 fyrirtæki frá Austurlandi mætt til að kynna sig og starfsemi sína.
Austurbrú heldur utan um uppsetningu og útlit bása austfirskra fyrirtækja og fékk Austurland verðskuldaða athygli fyrir góða hönnun á sameiginlegu útliti.
Samstarfsaðilar
Samstarfsaðilar Austurbrúar telja rúmlega 100 greiðandi fyrirtæki auk sveitarfélaga og þeirri þjónustu sem þar fellur undir. Þeir hafa aðgang að ráðgjöf hjá verkefnastjórum m.a. við þróunarvinnu, styrkumsóknir, markaðssetningu og annað tilfallandi. Austurbrú sér um sameiginlega markaðssetningu á landshlutanum í þágu samstarfsaðila, s.s. með því að sækja ferðasýningar og kaupstefnur en einnig í stafrænni markaðssetningu á samfélags- og vefmiðlum og blaðamannaferðum. Austurbrú stendur einnig fyrir lokuðum viðburðum fyrir sína samstarfsaðila og má þar m.a. nefna haustfund ferðaþjónustunnar, morgunfundi, námskeið og vinnustofur.
Fundir ferðaþjónustunnar
Morgunfundir ferðaþjónustunnar voru á sínum stað árið 2023. Í heildina voru haldnir sex morgunfundir sem allir voru vel sóttir. Umfjöllunarefni morgunfundanna voru m.a. birtingar á samfélagsmiðlum, stöðutaka og yfirferð verkefna Austurbrúar og fyrirhugað áætlunarflug Condor á milli Egilsstaða og Frankfurt.
Haustfundur ferðaþjónustunnar er orðinn að árlegum viðburði sem er vel sóttur af austfirskum ferðaþjónum. Fundurinn var með öðru sniði en vanalega í ár þar sem hann var samtengdur vinnustofunni Straumhvörf.
Undanfarin ár hafa aðilar úr ferðaþjónustunni, bæði innan landshluta og utan komið á haustfund og haldið stutt erindi um sinn rekstur, verið með hugvekjur eða farið yfir nytsamleg gögn tengd ferðaþjónustu í landshlutanum. Engin slík erindi voru á dagskrá í ár og var fundurinn sjálfur í formi ofangreindrar vinnustofu.
Að vinnustofu lokinni gerðu ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi sér glaðan dag í Vök Baths áður en haldið var á Gistihúsið á Egilsstöðum og átt saman indæla kvöldstund. Þar voru spiluð myndbönd frá þjóðþekktum einstaklingum sem sendu sínar bestu kveðjur til ferðaþjóna á Austurlandi. Að mat og skemmtun lokinni var förinni heitið á Tehúsið þar sem Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar voru veitt og þau hlutu Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths og Friðrik Árnason eigandi Hótel Breiðdalsvík og Travel East.
Straumhvörf
Áfram er unnið að langtímamarkmiðinu um að lengja ferðamannatímabilið og gera Austurland að heilsársáfangastað sem stendur undir atvinnu allt árið. Stærsta aðgerðin á árinu var verkefnið Straumhvörf sem Austurbrú, Markaðsstofa Norðurlands og Samtök sveitarfélaga á Norðvesturlandi og Norðausturlandi stóðu saman að með stuðningi Byggðastofnunar. Straumhvörf er vöruþróun í tengslum við beint alþjóðlegt flug inn á Akureyrar- og Egilstaðaflugvelli, sem snýr að því að auka og styrkja framboð á afþreyingu og gistingu. Tóku ríflega 50 ferðaþjónustuaðilar, þar af um 30 af Austurlandi, þátt í fimm vinnustofum þar sem þau unnu saman að því að þróa nýjar ferðir, einkum yfir vetrartímann, og lögðu drög að aukinni samvinnu sín í milli.
Verkefninu lauk á ferðaþjónustuvikunni í janúar 2024 þegar átta þátttakendur, þar af fimm frá Austurlandi kynntu vöru sem þeir hafa þróað á vinnustofunum fyrir ferðaskrifstofum, allt frá styttri gönguferðum til sérsniðinna, nokkurra daga ferða.
Ferðasýningar
Austurbrú tekur árlega þátt í ferðasýningum, vinnustofum og ráðstefnur í ferðaþjónustu fyrir hönd Austurlands á hverju ári. Er það hluti af markaðssetningu landshlutans til bæði innlendra og erlendra ferðamanna, sem og að styrkja og mynda ný viðskiptatengsl milli ferðaskrifstofa og samstarfsfyrirtækja Austurbrúar.
NánarÚtgáfa
Bæklingurinn Destination Guide fyrir Austurland var uppfærður og endurútgefinn í upphafi árs 2023 en hann nýtist sérstaklega vel á ferðasýningum og vinnustofum. Þýsk útgáfa af tímariti Austurlands, Think outside the circle var gefið út í tengslum við þá fyrirhugað áætlunarflug þýska flugfélagsins Condor. Á vormánuðum var Austurlandskortið uppfært og endurútgefið til tveggja ára. Yfir sumartímann er því dreift reglulega hringinn í kringum landið auk þéttari dreifingar á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Birtar voru auglýsingar og fréttatilkynningar í helstu íslensku prentmiðlum og ferðablöðum og auglýsingar voru samlesnar á Rás 1 og Rás 2 í tengslum við sumarið. Í upphafi hvers árs er markaðsefni er varðar samstarfsaðila okkar á ferðakaupstefnunni Mannamótum uppfært, útbúið að og prentað. Mannamót eru stærsti vettvangur ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni til að kynna sínar vörur og þjónustu og er haldinn ár hvert í janúar í Reykjavík. Austurlandsgangurinn vekur jafnan mikla athygli og umtal fyrir fallega umgjörð.
Blaðamanna- og áhrifavaldaferðir
Eitt verkefna Áfangastaðastofu Austurlands er að taka á móti blaðamönnum, skipuleggja með þeim ferðir um fjórðunginn og þar sem samstarfsaðilar Austurbrúar taka á móti þeim og kynna sína þjónustu og vörur. Auk þeirra á Austurbrú svo í samstarfi við áhrifavalda um kynningu á landshlutanum eða völdum viðburðum.
Nánar