Landsins gæði
Verkefni var styrkt af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og fyrsti hluti þess fór fram 2022. Í febrúar hófst undirbúningur vegna rannsóknar um Landsins gæði á Austurlandi. Könnun var send út og óskað eftir þátttöku íbúa á Austurlandi, auk þess sem tveir rýnihópafundir voru haldnir, annar á Djúpavogi og hinn á Egilsstöðum. Alls tóku 350 manns þátt í könnuninni og um tuttugu í rýnihópunum. Helstu niðurstöður eru þær að margir íbúar búa til, framleiða eða nýta staðbundin hráefni á Austurlandi. Þá hafa íbúar mikinn áhuga á því að auka þekkingu sína á nýtingu hráefna, t.d. í gegnum námskeið. Flestir íbúar á Austurlandi telja aðgengi sitt að náttúruauðlindum gott en vildu gjarnan að aðstaða til grenndargarða væri betri svo hægt væri að rækta í og við heimabyggð. Þá voru þátttakendur sammála um að erfitt væri að fá leyfi til framleiðslu og vöntun væri á framleiðslueldhúsum, þeir töldu mikilvægt að auka samvinnu, tryggja upprunamerkingu og að vörur frá Austurlandi yrði kynntar undir Austurlandsstjörnunni, sem er vörumerki Austurlands.
Þriðji og síðasti hluti verkefnisins var málþing sem haldið var samhliða þriðja Matarmótinu. Þar voru ýmsir sérfræðingar fengnir að borðinu og fluttu fjölbreytt og áhugaverð erindi.
NánarMatarmót
Þriðja matarmótið var haldið 11. nóvember í Hótel Valaskjálf. Að þessu sinni var bryddað upp á skemmtilegum nýjungum sem vöktu mikla og verðskuldaða athygli. Matvælaframleiðendur voru tuttugu en því til viðbótar voru þrír þátttakendur sem eru í framleiðsluhugleiðingum, en ekki komnir með fullgild leyfi. Fengu þeir gott tækifæri til að kynna vörur sínar og fá svörun við framleiðslunni. Fjórir framleiðendur vara úr austfirsku hráefni, annarra en matvara, sýndu vörur sínar og síðast en ekki síst fengum við góða gesti frá Hótel- og veitingaskólanum sem framreiddu fjölda rétta þar sem austfirskt hráefni gegndi lykilhlutverki. Opið var á matarmótið og er talið að allt að 500 manns hafi sótt mótið heim.
NánarAustfirskar krásir
Grasrótarsamtökin Austfirskar krásir voru endurvaktar í desember og átti stýrihópur Matarauðs Austurlands gott samstarf við nýja stjórn. Sameiginlegar áherslur felast í auknu samstarfi og auknum sýnileika austfirskra vara. Stjórn krásanna leggur áherslu á að framleiðendur og veitingaaðilar nýti Austurlandsstjörnuna til merkinga á sínum vörum og að hægt verði að nálgast austfirskar vörur í austfirskum verslunum. Stjórn krásanna, í samstarfi við Austurbrú og Samtök smáframleiðenda matvæla fengu styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands til að vinna verkefnið „Láttu stjörnuna leiða þig“ sem hefur það að markmiði að koma austfirskum matvörum í austfirskar dagvöruverslanir. Síðast en ekki síst hefur ný stjórn áhuga á því að útvíkka hlutverk samtakanna og bjóða þau, sem eru að framleiða vörur úr hráefni frá Austurlandi, aðra en matvöru, velkomin í samtökin.
Annað samstarf
Áfram var unnið í samstarfi við framkvæmdastjóra Samtök smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli. Verkefnastjóri tók m.a. þátt í námskeiðinu Matarfrumkvöðullinn og í 10 ára afmælishátíð Beint frá býli sem haldin var víða um land, m.a. á Lynghóli í Skriðdal. Auk þess sat verkefnastjóri á sjálfbærnimálþingi sem haldið var í Hallormsstaðaskóla og tók þátt í fundum markaðsteymis Austurbrúar þegar það átti við. Í samstarfi við Nielsen restaurant kom Austurbrú að móttöku gesta frá Astoria í Oregon en áhugi er fyrir því að mynda systrasamlag við Astoria og Warrenton.