Efling Egilsstaðaflugvallar
Markvisst er unnið að því að gera Austurland að vænlegum kosti fyrir erlend flugfélög og ferðaskrifstofur í leiguflugi. Þessi vinna er nátengd starfi Austurbrúar við að efla áfangastaðinn Austurland, s.s. að þróa ferðaleiðir, innkomuleiðir og áfangastaði innan fjórðungsins og efla matarmenningu svo eitthvað sé nefnt.
NánarVatnaskil
Á árinu hófst vinna við verkefnið Vatnaskil. Tilgangur verkefnisins er að efla nýsköpun og stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi í dreifbýli Austurlands. Sérstaklega er horft til þess að skapa tækifæri fyrir ungt fólk. Verkefnið er unnið í samstarfi við Félag ungra bænda á Austurlandi og Búnaðarsamband Austurlands.
NánarÓstaðbundin störf
Vinna við kortlagningu rýma fyrir óstaðbundins störf á Austurlandi hélt áfram í byrjun árs. Farið var í auglýsingaátak fyrir vefsíðuna og hvatt til þess að nýta þau fjölmörgu, ólíku rými sem finna má á svæðinu. Fleiri rými bættust við á árinu og eru þau nú 25 talsins. Auðvelt er að bæta fleiri rýmum við og eru áhugasöm hvött til að hafa samband við verkefnastjóra, óski viðkomandi eftir því að þeirra rými verði auglýst á síðunni.
Nú stendur yfir vinna hjá Byggðastofnun varðandi kortlagningu rýma um allt Ísland og hafa starfsmenn þar litið til vinnunnar hjá Austurbrú varðandi framsetningu efnis.
NánarMatarauður Austurlands
Áfram var unnið að fjölmörgum verkefnum innan Matarauðs Austurlands; þriðja Matarmótið var haldið, grasrótarsamtökin Austfirskar krásir voru endurvakin og ýmis konar samstarf við íbúa og aðila á þessu sviði fór fram. Ljóst er að mikil vakning er á Austurlandi þegar kemur að matvælaframleiðslu, nýtingu hráefnis frá Austurlandi og aðgengi að þessum vörum. Það eru því spennandi tímar framundan og verður fróðlegt að sjá hverju fram vindur á næstu árum.
NánarHringrásarhagkerfið
Árið 2022 fékk Austurbrú styrk frá Loftslagssjóði til að búa til þrjú fræðslumyndbönd þar sem markmiðið var að hvetja samfélagið á Austurlandi til að huga að loftslagsmálum og fá íbúa til að skoða hvernig þeir geta með litlum breytingum stuðlað að lægra kolefnisspori. Myndböndin voru framleidd árið 2022 en lokafrágangur fór fram í byrjun árs 2023. Í byrjun janúar kom umhverfisráðherra í heimsókn til Austurlands og var tækifærið nýtt til að frumsýna eina af myndunum fyrir hann og aðra starfsmenn ráðuneytisins auk þess sem aðgangur fyrir almenning var opnaður í framhaldinu.
Í framhaldinu voru myndböndin send í alla skóla á Austurlandi, í fyrirtæki og stofnanir og hvatt til þess að þau væru sýnd sem víðast til að auka vitund okkar allra um mikilvægi þess að fullvinna auðlindir, minnka sóun og stuðla að lægra kolefnisspori.
NánarHringrásarhagkerfið: Úrgangsmál
Í byrjun árs 2023 tóku formlega gildi nokkuð umfangsmiklar breytingar á lögum sem varða meðhöndlun úrgangs, flokkun og endurvinnslu. Markmið þeirra er að vinna að innleiðingu hringrásarhagkerfis og stuðla að sjálfbærri auðlindanotkun. Unnið hefur verið að gerð svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs fyrir Austurland en sveitarfélögin á Austurlandi hafa ákveðið að setja saman sameiginlega svæðisáætlun sem ætlað er að gilda til 12 ára.Í svæðisáætlun setja sveitarfélögin sér stefnu og markmið varðandi meðhöndlun úrgangs og aðgerðaráætlun til þess að ná þeim markmiðum. Vinna við áætlunina hófst haustið 2022.
Uppbygging atvinnulífs á Seyðisfirði
Stjórnvöld, Múlaþing og Austurbrú standa að þriggja ára verkefni um uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði í kjölfar aurskriðanna í desember 2020 en það hefur staðið frammi fyrir fjölþættum áskorunum í kjölfarið. Veitt alls 215 milljónum kr. til ráðgjafar, greiningar og verkefna sem miða endurreisn atvinnulífs og nýsköpun. Stærsti einstaki þáttur verkefnisins er Hvatasjóður þar sem úthlutað er til verkefna sem miða að því að virkja frumkvæði íbúa og koma til móts við þá atvinnurekendur og einstaklinga í atvinnurekstri sem orðið hafa fyrir tjóni. Í febrúar var úthlutað í þriðja sinn úr Hvatasjóði en eins og á fyrstu tveimur árum Hvatasjóðsins einkenndust umsóknir af miklum metnaði. Úthlutað var 55 milljónum til 26 verkefna, sem eru afar fjölbreytt og og bera vitni því einstaka hugarfari sem einkennir Seyðfirðinga. Í þremur úthlutunum úr sjóðnum hafa 165 milljónir runnið til 35 aðila. Af öðrum þáttum verkefnisins má nefna ráðgjöf sem hefur verið veitt til að taka á bráðum rekstrarvanda og að skjóta stoðum undir framtíðarrekstur, vinnu við að leiða tjónamál til lykta, fræðsluefni um skriðuna og afleiðingar hennar og fræðslu- og virkniúrræði.
Fimm manna verkefnisstjórn er yfir verkefninu; tveir fulltrúar Múlaþings, tveir frá heimastjórn Seyðisfjarðar og einn frá stjórn Austurbrúar. Verkefnisstjóri uppbyggingarverkefnisins er hjá Austurbrú.