Sóknaráætlun Austurlands hefur stutt við uppbyggingu menningar síðustu ár og er það mikilvægur þáttur í uppbyggingu og styrkingu landshlutans. Verkefnin eru unnin í gegnum Austurbrú og starfsmenn sinna mismunandi verkefnum hverju sinni. Hæst ber barna- og ungmennahátíðin BRAS sem er unnin í mjög góðu samstarfi við menningarmiðstöðvarnar þrjár auk sveitarfélaga og stofnana á Austurlandi. Stýrihópur vinnur sameiginlega að mótum hátíðarinnar á hverju ári. Fjármögnun BRAS hefur verið meðal annars í gegnum Barnamenningarsjóð, Alcoa og Sóknaráætlun Austurlands. Árlega er unnið að því að efla hátíðina og koma alltaf fleiri og fleiri að hátíðinni bæði listamenn og stofnanir. Ánægjuleg breyting er nú sú að listamenn á Austurlandi bjóða upp á viðburði á BRAS og er það mjög góð þróun sem styður við listuppbyggingu í landshlutanum.

Á vordögum hófst vinna við nýja menningarstefnu fyrir Austurland. Haldinn var fjölmennur og góður vinnufundur í Valaskjálf þar sem ákveðinn grunnur að stefnunni var lagður með skýra tengingu við nýtt Svæðisskipulag. Vinnan hefur síðan tafist af mismunandi orsökum en kemur til með að ljúka á árinu 2024. Meðal annars er ætlunin að kalla saman fleiri hópa sem vantaði á vinnufundinn í Valaskjálf svo sem tónlistakennara- og tónlistafólk. Forstöðumenn safna og aðrir starfsmenn sem voru einnig margir fjarverandi enn báðir þessir hópar eru mikilvægir í mótun menningarstefnu fyrir Austurland.

Tenging milli menningar og ferðaþjónustu er mikilvæg og er unnið að því að efla þessi tengsl í markasetningu á Austurlandi í gegnum Áfangastaðaáætlun Austurlands. Eitt af þeim verkefnum er sýnileiki menningar- og náttúruminja. Unnið var að því verkefni á árinu og líkur henni vorið 2024. Verður þá m.a. lengri og ýtarlegri texti á vefnum VisitAusturland um ákveðna staði sem valdir voru í verkefninu auk nýrra mynda.

Á Austurlandi starfa þrjár menningarmiðstöðvar með mismunandi listrænar áherslur: Skaftfell á Seyðisfirði sem er miðstöð myndlistar, Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði með áherslu á tónlist og Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs með áherslu á sviðslistir. Samkvæmt samningi SSA og ríkisins í gegnum sóknaráætlun landshlutans kemur fjármagn til miðstöðvanna að jöfnu við framlag sveitarfélaganna þar sem miðstöðvarnar eru staðsettar. Austurbrú hefur hlutverk samkvæmt samningi  að efla samstarf menningarmiðstöðvanna þriggja á Austurlandi og standa fyrir reglulegum fundum með miðstöðvunum. Tilgangur fundanna er að skapa samlegð og samstarf milli miðstöðvanna sem er mikilvægt. Þannig byggist upp þekking í miðstöðvunum sjálfum og tengsl sem eru mikilvæg.

Skriðuklaustur, safn, fljótsdalur, fljótsdalshreppur. menning. Ljósmynd: Jessica Auer.

Starfsmenn Austurbrúar vinna árlega í menningarmálum með sveitarfélögum, menningarstofnunum og öðrum landshlutasamtökum. Reglulegir fundir eru haldnir með starfsmönnum menningarmála í landshlutasamtökunum í gegnum teams, en hittast svo tvisvar á ári. Vorið 2023 var farið á Norðurlandi þar sem fundað var á Húsavík auk þess sem kynntar voru mismunandi menningarstofnanir víða um Norðurland. Í október var svo fundað í Reykjavík og þar var fundur með menningar- og viðskiptaráðherra ásamt nokkrum starfsmönnum ráðuneytisins. Farið er í heimsóknir til menningarstofnanna, og menningaruppbygging landshlutanna kynnt fyrir mismunandi stofnunum. Að þessu sinni hitti hópurinn m.a. forseta BÍL, Erling Jóhannsson og fundaði með Rannís og Sambandi sveitarfélaga.

Mikilvæg atvinnuráðgjöf tengt menningu og listum er veitt af starfsmönnum Austurbrúar. Bæði við gerð umsókna í menningarsjóði enn auk þess við fjármögnun verkefna sem og tengslanetamyndun.

Menning er mikilvæg í allri uppbyggingu samfélaga stórra sem smárra. Menning og listir auka sameiningarkraft og skilning á ólíkum menningarheimum. Menning er oft brúin milli ólíkra þjóðfélagshópa, fólks og svæða. Menning og listir gefa lífinu meiningu og vellíðan.