Menntaðir náms- og starfsráðgjafar hjá Austurbrú eru tveir og báðir staðsettir í Neskaupstað. Annar sinnir ráðgjöfinni í u.þ.b. 60% hlutfalli en hinn kemur inn í verkefni þegar á þarf að halda. Ráðgjafarnir ferðast talsvert til að koma til móts við ráðþega. Mikið er um fjarráðgjöf þar sem stuðst er við Teams, tölvupósta og símtöl. Ráðþegar verða sífellt öruggari fjarumhverfinu og margir kjósa það umfram það að hittast á starfsstöð. Einnig er algengt að ráðgjöf einstaklings sé blönduð í fjarfundi, tölvupóstum, símtölum og með viðtali á staðnum eftir því hvað hentar hverju sinni. Heildarfjöldi viðtala ár árinu var tæplega 400 og heildarfjöldi einstaklinga sem fengu þjónustu ráðgjafa með hvort sem var hópráðgjöf eða einstaklingsráðgjöf voru 205.
Náms- og starfsráðgjafi sinnir mikið einstaklingum sem leita til hans að eigin frumkvæði og eftir kynningu á vinnustöðum. Auk þess sinnir náms- og starfsráðgjafi skjólstæðingum StarfA töluvert bæði í formi einstaklingsráðgjafar og námskeiða/hópráðgjafar. VIRK og VMST eiga auk þess kost á að vísa sínum skjólstæðingum í náms- og starfsráðgjöf hjá Austurbrú.
Náms- og starfsráðgjafi sinnir hópráðgjöf og heldur námskeið. Árið 2023 hélt ráðgjafi námskeið fyrir skjólstæðinga StarfA, háskólanema á Austurlandi og fyrirtæki í tengslum við fræðsluáætlun. Náms- og starfsráðgjafi kom einnig inn í lengri námsleiðir Austurbrúar með kennslu og ráðgjöf.
Langflestir sem leita til náms- og starfsráðgjafa vilja hefja nám, oft eftir langt hlé frá námi. Einstaklingar sækjast t.d. eftir aðstoð við að átta sig á áhugasviði sínu, þeir fá þá viðtal og taka áhugasviðskönnun þar sem niðurstöðurnar eru ræddar út frá fjölbreyttum sjónarhornum. Ýmsir þurfa aðstoð við að skoða hvaða nám er í boði, bæði í framhaldsskóla og háskóla, hvernig menntakerfið virkar, hvað þeir þurfa til að vera gjaldgengir í háskólanám o.fl. Oft þarf að aðstoða viðkomandi við að skoða hvað þeir eru búnir með og hvaða leið er best, hvort þeir séu gjaldgengir í raunfærnimat en auk þess leita margir í náms- og starfsráðgjöf gagngert til að fara í raunfærnimat. Þeir sem eru að skoða háskólanám vilja í langflestum tilfellum búa áfram á Austurlandi og sækjast því eftir fjarnámi. Náms- og starfsráðgjafi aðstoðar einnig ráðþega í starfsþróun sinni og starfsleit. Einstaklingar fá tækifæri til að spegla sínar hugmyndir í opnu samtali og fær auk þess aðstoð við gerð ferilskrár, kynningarbréfs og vegna undirbúnings fyrir atvinnuviðtals. Náms- og starfsráðgjafi sinnir að sjálfsögðu einstaklingum af erlendum uppruna, þeir þurfa gjarnan aðstoð við að átta sig á íslenska kerfinu bæði í mennta- og starfsumhverfi. Erlendir íbúar fá einnig aðstoð við að átta sig á hvaða leið þeir þurfa að fara hverju sinni til að fá nám sitt metið hér á landi.
Náms- og starfsráðgjafi Austurbrúar tekur virkan þátt í starfi Félags náms- og starfsráðgjafa. Árið 2023 sat hann í fræðslunefnd félagslins og tók m.a. virkan þátt í að skipuleggja og framkvæma ráðstefnu félagsins sem fjallaði um náms- og starfsráðgjöf í fjölmenningarsamfélagi.